143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst umræðan í salnum benda til þess að það væri rétt að fara að ljúka þingstörfum í dag og leyfa mönnum að komast til annarra verka. Það er þegar liðið á aðventuna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í verðlagsforsendurnar sem fjárlagafrumvarpið gefur sér. Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að þær geti haft á verðlag? Hvaða verðhækkanir geta leitt af þeim forsendum sem fjárlagafrumvarpið gefur sér, hækkun á skuldum heimilanna með vísitöluhækkunum með meiri verðbólgu? Hvaða áhrif sér þingmaðurinn fyrir sér að forsendur fjárlagafrumvarpsins geti haft í þessu? Hvernig lítur hann á þessa heildarmynd þegar annars vegar er talað um skuldaleiðréttingu og hins vegar verðlagshækkanir og hækkun á skuldum í gegnum þær? Niðurskurður vaxtabóta er aukinn, (Forseti hringir.) hvernig kemur þetta inn í umhverfi þeirra kjarasamninga sem fyrir höndum eru?