143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson spyr mig út í það ferli sem fjárlögin hafa verið í. Það sem ég gerði að umtalsefni í upphafi ræðu minnar var að á sumarþingi var óskað eftir því að þing kæmi ekki saman 10. september heldur 1. október og aðalástæðan fyrir því var að ríkisstjórn var ekki tilbúin með fjárlög, gæti ekki verið tilbúin með fjárlög 10. september, á samkomudegi Alþingis eins og þingsköp segja til um.

Sá sem hér stendur hafði alveg skilning á því og var hlynntur því, eða eins og ég sagði: Ef til vill er það þannig á kosningaári að langan tíma getur tekið að mynda ríkisstjórn. Það gerði það núna, margir pönnukökufundir voru haldnir og þetta tók langan tíma. Það getur vel verið að við þurfum að hafa möguleika á því að samkomudagur Alþingis eða framlagning fjárlagafrumvarps geti verið seinna á kosningaári. Ég hef skilning á því en ég geri athugasemdir við ferlið allt, fjárlagafrumvarpið eins og það er, breytingartillögur, og við skulum hafa í huga að breytingartillögur fjárlaganefndar við 2. umr. fjárlaga eru auðvitað breytingartillögur ríkisstjórnar, sem sendar voru og hafa komið hérna fram. Það var sent frá ríkisstjórn að skera ætti niður barnabætur um 350 milljónir kr., það er til í gögnum hjá nefndinni. En það er allt ferlið eftir það og, enn og aftur, að við séum ekki búin með 2. umr. og ekki búin að greiða atkvæði við 2. umr. að kvöldið til 17. desember. Það er mjög alvarlegt mál og sýnir að það er einhver ástæða fyrir því. Ég held einfaldlega að ástæðan sé annars vegar ósamkomulag og hins vegar vil ég kenna um reynsluleysi.