143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:59]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að taka upp þráðinn þar sem fyrri ræðumaður hætti í ræðu sinni. Ég er nefnilega sammála því að það er ákveðið metnaðarleysi gagnvart jafnaðarstjórninni og gagnvart skynsamlegri nálgun á kjarasamninga að fara í svona miklar verðlagshækkanir. Ég er sammála því að það hefði verið góð merkjasending út í atvinnulífið að hafa verðlagshækkanirnar frekar bundnar verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sérstaklega í ljósi þess að við ræðum nú í þingsal mikið verðtryggðar skuldir heimilanna. Við munum sjálfsagt ræða það á komandi mánuðum og þær ákvarðanir sem við tökum varðandi verðlagshækkanir. Gjöld hins opinbera hafa auðvitað bein áhrif á verðtryggðar skuldir heimilanna þannig að maður hefði alveg getað séð það sem skynsamlega nálgun af hálfu stjórnarmeirihlutans að taka gjaldskrárhækkanir með í reikninginn ef viðfangsefnið er að reyna að lækka höfuðstól verðtryggðra lána. En það er ekki gert og þá er ekkert annað að gera en hvetja til þess að það verði gert á komandi árum eða þessu kjörtímabili, vegna þess að nægur virðist nú áhuginn vera á því að reyna að koma til móts við heimilin þegar verðtryggðar skuldir eru annars vegar. Þær hækkanir sem við ákveðum hér hækka höfuðstól verðtryggðra lána.

Ég ætla að fara aðeins yfir þær breytingar sem verið er að gera á málinu nú milli 2. og 3. umr. Þær eru margar ágætar, enda eru þær niðurstöður samninga formanna flokkanna hér, alla vega sumar.

Fyrst ber að nefna fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Það er ágætt mál að umboðsmaður skuldara fái þarna svigrúm af tekjustofni sínum til þess að aðstoða fólk sem fara þarf í gjaldþrotaskipti í tengslum við mál sem hér var samþykkt á þingi. Við styðjum það að sjálfsögðu í Bjartri framtíð.

Svo er breytt hér og felld burt grein sem fjallaði fyrst um að minnka endurgreiðslu af framlögum fyrirtækja til rannsóknar og þróunar, nýsköpunarfyrirtækja. Það endurgreiðsluhlutfall er lækkað úr 20% í 15%, þetta er að finna í 17. gr. frumvarpsins. Síðan var því breytt í meðförum nefndarinnar þannig að frekar var farið í það að lækka þakið á endurgreiðslu vegna framlaga til rannsóknar og þróunar. Við í Bjartri framtíð vorum á móti hvoru tveggja og töldum mjög óskynsamlegt að minnka stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Við töldum heldur ekki skynsamlegra að minnka stuðning við stærri nýsköpunarfyrirtæki, en það var í rauninni það sem lækkunin á þakinu fól í sér. Við eigum í ríkri samkeppni við aðrar þjóðir um stærri fyrirtæki. Það eru stærri fyrirtæki sem geta flutt sig mun frekar og geta varið umtalsverðum upphæðum til rannsókna og þróunar og er ákaflega mikilvægt að hlúa vel að þeim.

Það er því mjög mikið fagnaðarefni að 17. gr. sé núna dottin út. Ekki verður farið í að lækka þakið þannig að endurgreiðsluhlutfallið til fyrirtækja vegna framlaga til rannsóknar og þróunar er óbreytt.

Þá fagna ég því og efast í raun ekki um að meiri hluti nefndarinnar er og hefur alltaf verið þeirrar skoðunar sem birtist nú loksins í nefndarálitinu og ég leyfi mér að vitna hér í nefndarálitið, með leyfi forseta. Þar stendur:

„Einnig var talið að áhrif gildandi ákvæða laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki á greiðslustöðu ríkissjóðs væru í raun jákvæð og dregið í efa að lækkun tekjuskattsfrádráttarhlutfalls mundi á endanum skila ríkissjóði þeirri niðurstöðu sem lagt væri upp með.“

Það er sérstakt ánægjuefni að klausa af þessu tagi skuli vera komin inn í álit frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og þar með stjórnarmeirihlutans. Þetta er það sem málið snýst um. Þessi framlög skila sér. Ég veit vel að margir í meiri hlutanum í efnahags- og viðskiptanefnd, ekki síst formaður nefndarinnar, vita vel af þessu. Það er svo mikilvægt að við framkvæmum stjórnarstefnu og efnahagsstefnu sem tekur þetta með í reikninginn. Framlög til nýsköpunar skila sér til baka til ríkisins ef þau eru skynsamleg og þessi endurgreiðsla hefur verið skynsamleg.

Þetta er það sem við í Bjartri framtíð og margir aðrir þingmenn höfum verið að tönnlast á á undanförnum vikum og mánuðum í tengslum við afgreiðslu þessara tekjuöflunarfrumvarpa og í tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Það er ánægjuefni að sjá þetta viðurkennt hér.

Þá mundi ég segja að næsta skrefið væri að nota sömu góðu röksemdafærsluna þegar við fjöllum t.d. um Tækniþróunarsjóð eða Kvikmyndasjóð eða önnur framlög til rannsókna og vísinda og til eflingar skapandi greina og græns iðnaðar.

Endurgreiðslur á kostnaði eru skynsamlegar ef þær eru vel útfærðar og þessar eru það. Samkeppnissjóðir eru, ef þeir eru skynsamlega uppbyggðir, líka góðir til að hvetja til fjölbreytni í atvinnulífinu, til nýsköpunar sem síðan skilar sér aftur.

Ég er hér með bréf fyrir framan mig þar sem farið er yfir hvað þessi framlög skila sér, t.d. í tilviki eins nýsköpunarfyrirtækis sem stofnað var á árinu 2006. Árið 2006 fékk það ekki neitt frá ríkinu, svo strax árið 2007 komu 4 milljónir úr Tækniþróunarsjóði. Ef horft er á muninn — svona fyrirtæki byrja strax að greiða skatta. Þau byrja strax að greiða til baka til ríkisins þegar starfsemi hefst. Fyrstu árin er mismunur á greiðsluflæði skatta og framlaga ríkisins enginn og er í mínustölu 2008, en núna, 2013 fær ríkið samkvæmt áætlun til baka frá þessu fyrirtæki 140 milljónir — bara árið 2013. Þegar tekið er tillit til þess hvað ríkið leggur til fyrirtækisins og hvað ríkið fær til baka í sköttum á árinu 2013 er ríkið í 140 millj. kr. plús. Í heildina litið í tilviki þessa fyrirtækis hefur ríkið lagt til 175,6 milljónir í formi endurgreiðslu og framlaga gegnum Tækniþróunarsjóð á tímabilinu frá 2006 til 2013, en tekjur ríkissjóðs af fyrirtækinu eru á sama tíma 392,3 milljónir, nánast 400 milljónir eftir að það hefur lagt 175,6 milljónir til fyrirtækisins. Hér er um að ræða eitt fyrirtæki sem byrjar á núlli árið 2006.

Ef horft er á uppgjör framlaga ríkisins til fyrirtækisins og síðan þess sem fyrirtækið hefur skilað á móti er sú tala í mínus, 6,2 árið 2008, en sú tala hefur í raun 35-faldast á þessu árabili.

Auðvitað er ég bara að tala um eitt fyrirtæki. Svo hafa verið nefndar hér aðrar tölur í þessari umræðu. Það hefur verið skoðað úrtak 13 fyrirtækja sem Tækniþróunarsjóður studdi árið 2005, og ef það er skoðað aftur þá var heildarvelta þeirra 20 milljarðar kr., en þessi velta var 118 milljarðar kr. á árinu 2012, hún sexfaldaðist. Þessi fyrirtæki eru fljót að borga til baka í dágóðum plús, margföldum plús til ríkisins. Hér er því um fjárfestingu að ræða. Hér eru leiðir til að afla tekna.

Ég endurtek: Ég fagna því að nú séu þau augljósu sannindi hluti af meirihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar að framlög til nýsköpunar og þróunar borga sig.

Ég vil líka leggja áherslu á það í þessu samhengi að þegar formenn flokkanna settust niður og ræddu lok þingstarfa, og við í Bjartri framtíð fögnum alltaf samráði en vildum óska þess að það yrði haft fyrr á þingvetri en alveg undir lokin. Við lögðum mikla áherslu á það í þessu samráði að stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki yrði efldur frá því sem útlit var fyrir í fjárlögunum og enn þarf að gera miklu betur. Vegna þess að það var samhljómur, fannst mér, meðal formannanna um að það væri mikilvægt verkefni að efla stuðning við nýsköpun og þróun og skapandi greinar, grænan iðnað, ferðaþjónustu, var það niðurstaðan að hér yrði stofnuð þverpólitísk þingnefnd með fulltrúum allra flokka, sem fengi það verkefni að útfæra hvernig við gætum farið í stórauknar fjárfestingar á þessu sviði. Ég vil minna á þá niðurstöðu og legg mikla áherslu á að það verði gert.

Ég get alveg tekið undir að eitt verkefnið er að færa til fjármagn í þessum geira. Á Íslandi setjum við talsvert fé í rannsóknir og þróun og nýsköpun, en það er hlutfallslega mjög lítið og allt of lítið til samkeppnissjóða, þannig að eitt verkefnið væri að efla samkeppnissjóði.

Ég legg mikla áherslu á að þessi þingnefnd taki til starfa vegna þess að ég held að þetta sé verkefnið sem allir eru sammála um þó að það birtist því miður ekki í fjárlögum og ekki nema að hluta til í breytingartillögum milli 2. og 3. umr.

Ég fagna því að gjöld vegna innlagnar á sjúkrahús falli niður. Það mál var komið í miklar ógöngur og var orðið þannig að fólk átti að þurfa að borga 11 þúsund kall ef það yrði lagt inn á sjúkrahús. Ég vil hins vegar taka fram að ég tel fyrirkomulag gjaldheimtu á sjúkrahúsum eða í heilbrigðiskerfinu vera mjög óréttlátt eins og það er og ekkert réttlæti í því að sumir þurfa að borga háar fjárhæðir ef þeir stíga fæti inn á sjúkrahús og eru á göngudeild en aðrir borga ekki neitt. Ég minni á að það er heildarendurskoðun í gangi sem leidd er af hv. þm. Pétri H. Blöndal. Það er skynsamlegt að bíða niðurstöðu þeirrar vinnu sem miðar að því að reyna að hafa eitthvert heildarsamhengi í gjaldtökunni. Ég held að sé líka mjög mikilvægt að hlutur sjúklinga aukist ekki. Hann hefur verið að aukast á undanförnum árum. Það er gott að það sé hætt við þetta núna.

Varðandi Ríkisútvarpið finnst mér þetta vera svolítið svipað og margt annað í tengslum við fjárlög og tekjuaflanir á þessu þingi að það eru farnar einhverjar hliðarleiðir til þess að reyna að redda málunum. Nú á Ríkisútvarpið sem sagt að sniðganga tilmæli ESA um reyna að fá tekjur einhvern veginn í gegnum það. Það er auðvitað ástæða til þess að gera athugasemdir við það.

Hér eru leiðréttingar á texta nefndarálits. Við tökum að sjálfsögðu undir og vonumst til að hugtakið „skólagjöld“ hafi slæðst inn af eintómum misskilningi, að þarna sé ekki um freudískt mismæli að ræða sem endurspegli einhverjar langanir stjórnarmeirihlutans til þess að leggja á skólagjöld, þetta heita skrásetningargjöld. Við lítum svo á í Bjartri framtíð að það sé grundvallarmunur á skrásetningargjöldum og skólagjöldum og þyrfti nú aldeilis meiri umræðu ef við ætluðum að leggja á skólagjöld.

Ég fagna fram kominni breytingartillögu frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að hætta einfaldlega við hækkun á skrásetningargjöldum, vegna þess að nú þykir sýnt að sú hækkun rennur í ríkissjóð. Þá er það gjald ekkert annað en stúdentaskattur. Við mótmælum honum.