143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[14:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég stend sem nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd að því frumvarpi sem hér er til umræðu en með fyrirvara. Fyrirvarinn lýtur að því að ekki er nægjanlega að gert. Ég stend auðvitað að þessu frumvarpi vegna þess að með því er verið að snúa ríkisstjórninni við á einstefnuleið hennar í átt að auknu misrétti og í átt að frekari ójöfnuði í samfélaginu. Það er verið að hemja ríkisstjórnina í öfugþróuninni og það er fagnaðarefni.

Við í Samfylkingunni lögðum til fyrir rétt um viku ítarlegar tillögur í skattamálum til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Þær tillögur voru felldar í gær en nú er verið að innleiða þær að hluta hér í kjölfar samkomulags við aðila vinnumarkaðarins.

Ég varaði hæstv. ríkisstjórn ítrekað við því á hvaða vegferð hún væri, minnti á að það þyrfti að haga skattbreytingum þannig að fólk með venjuleg laun á bilinu 250–600 þús. kr. þyrfti að fá eitthvað út úr þeim í staðinn fyrir að forgangsraða þeim öllum í þágu ríkasta fólksins í landinu.

Hér voru haldnar á langar ræður af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um það að fyrir henni vekti varðstaða um millistéttina (Gripið fram í.) og hún skýldi sér — ég heyri að það er erfitt fyrir fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna að heyra hér sannleikann um ósanngirnina sem búið er að bera á borð fyrir þjóðina.

Það sem hefur náðst núna er áfangasigur. Hann felst í því að undið er ofan af ósanngirninni, en það er ekki farið alla leið. Þá komum við auðvitað að þessu: Hver er ábyrgð ríkisstjórnar við slíkar aðstæður? Hún er mikil. Hún þarf auðvitað að brúa bilið og stíga inn og færa fram aðgerðir sem hjálpa til við að tryggja sanngjarna lausn. Það hefur þessi ríkisstjórn klikkað á að gera.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær hofmóðugur að frumkvæði ríkisstjórnarinnar hefði valdið því að saman væri að ganga með aðilum vinnumarkaðarins vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefði komið með hugmyndir til þess að létta undir með þeim lægst launuðu. Hvað kemur í ljós núna? Það er ekkert í tillögupakka ríkisstjórnarinnar um hina lægst launuðu. Ríkisstjórnin hafnar tillögum Alþýðusambandsins, sameiginlegum tillögum aðila vinnumarkaðarins, um að nýta fé betur, hætta við skattbreytingar sem nýtast fyrst og fremst ríkasta fólkinu og flytja hluta af ávinningnum til lægst launaða fólksins.

Ég fagna þeirri breytingu sem er að verða því að hún flytur 20 þúsund manns úr miðtekjuþrepi í neðsta þrepið og ekkert sýnir betur skynsemi þess að hafa fjölþrepa skattkerfi í þessu landi, hversu mikilvægt það er að halda fast í það kerfi sem við komum á hér á síðasta kjörtímabili, fjölþrepa skattkerfi sem tryggir réttláta dreifingu byrða og betri tækifæri fyrir fólk á lágum og meðaltekjum. Það er ánægjuefni að við séum núna að ná að festa það kerfi í sessi og koma í veg fyrir þær tilraunir ríkisstjórnarinnar sem augljósar hafa verið á undanförnum vikum, að reyna að hola það kerfi að innan, skaða það og skemma þannig að á endanum verði að leggja það af.

Í tillögum aðila vinnumarkaðarins var komið með hugmynd að nýrri útfærslu, þann þátt sem við ræðum hér og að því viðbættu að í staðinn fyrir að lækka skatt í millitekjuþrepi um 0,5%, sem nýtist fyrst og fremst best launaða fólkinu, yrði þeim sömu fjármunum varið í að hækka persónuafslátt um 1 þús. kr. Það liggur fyrir að áhrif af slíkri tilfærslu væru engin á ríkissjóð. Þetta bara spurning um réttlæti. (Gripið fram í.) Þessi ríkisstjórn ákvað hins vegar að setja vini sína í forgang. Nú er skrípamyndin um varðstöðu um millistéttina orðin ljós. Það er alveg ljóst að hin meinta varðstaða um millistéttina er hvergi. Varðstaðan snýst um þau 10% sem mest hafa milli handanna (Gripið fram í: Já.) og ríkisstjórnin setti allt í sölurnar (Gripið fram í.) til að [Frammíköll í þingsal.] passa að fólkið … (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Þessi ríkisstjórn lagði allt í sölurnar og var tilbúin að setja kjarasamninga í hættu til þess að passa að vinir hennar, 10% þjóðarinnar sem hæst hafa launin í landinu, fengju 3.500 kr. frekar en að 10% þjóðarinnar, sem eru á lægstu laununum, fengju 1 þús. kr. Reyndar hefðu vildarvinir ríkisstjórnarinnar líka fengið þar 1 þús. kr. Ekkert sýnir betur þá markvissu stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að snúa af leið jafnaðar, styðja við þá sem mest hafa milli handanna fyrir og fórna hverju sem er til að ná þeim árangri.

Hverju er fórnað? Sjálfstæðisflokkurinn er náttúrlega ekki að fórna neinu. Hann hefur stefnt að því leynt og ljóst að hlaða undir þá sem mest hafa á milli handanna. En Framsóknarflokkurinn, sem hefur stundum sett á sig grímu félagshyggju, af og til, er leiddur í þessa herferð (Gripið fram í.) með Sjálfstæðisflokknum. Það dapurlega er auðvitað að hæstv. forsætisráðherra er gerður að ómerkingi því að hann hefur ítrekað sagt að best væri að hækka persónuafslátt. (Gripið fram í.) Hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn? Forsætisráðherrann er settur út í horn við frágang kjarasamninganna, fjármálaráðherrann klárar þá svo að hann geti tryggt að þeir sem mest hafa á milli handanna fái drýgstan hluta skattbreytinganna og forsætisráðherrann er þar með gerður að ómerkingi, ekkert gert með hans orð, ekkert gert með þann skýra boðskap forsætisráðherra að best sé að hækka persónuafslátt.

Virðulegi forseti. Þegar allt þetta er greint og á það litið blasir við ósanngirnin í þeim skattbreytingum sem ríkisstjórnin gengst nú fyrir. Við gagnrýndum þær í gær en við fengum ekki skýrt dæmi um öfugþróunina, svona skýrt dæmi eins og við erum að fá núna, að þegar ríkisstjórninni býðst að lækka alla um 1 þús. kr. kýs hún að passa að fátækasta fólkið fái ekkert og ríkustu 10% fái 3.500. Það er forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar, það er val hennar og það er þannig sem hennar verður minnst, (Gripið fram í.) ríkisstjórnarinnar sem sneri af braut aukins jafnaðar í samfélaginu og hóf á ný að auka ójöfnuð og grafa undan jöfnum tækifærum.

Virðulegi forseti. Umfjöllun ríkisstjórnarinnar og viðbrögð hennar við tillögum aðila vinnumarkaðarins um að halda aftur af verðlagshækkunum er kapítuli út af fyrir sig. Hún flytur okkur sérkennilegan boðskap um það að hún ætli að reyna að halda aftur af sumum, þessum og hinum, og hún ætli ekki að hækka verð meira en sem nemur verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Hverjir eiga þá að hækka minna en hæstv. ríkisstjórn? Þegar ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á verðstöðugleika í landinu og ber ábyrgð á því að halda samfélaginu saman tilkynnir fyrir fram að hún ætli að hækka allt verð um 2,5%, gefi sig einhver fram sem ætlar að hækka um 1% eða 1,5%. Sá mun ekki fyrirfinnast.

Með þessum hætti kyndir ríkisstjórnin undir verðbólgu, elur á vanda og tekur ekki í útrétta hönd sveitarfélaganna sem eru búin að marka stefnu um að halda aftur af gjaldskrárhækkunum. Frumkvæði Reykjavíkurborgar var mikilvægt að því leyti. (Gripið fram í.) Og bæjarfulltrúar okkar Samfylkingarinnar vítt og breitt um land hafa staðið fyrir sams konar tillögugerð í sveitarfélögum. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin er hins vegar bundin vanahugsun. Það á að halda áfram að kynda undir verðbólgu. Það á að halda áfram með gamaldags aðferðafræði að öllu leyti. Það á að hlaða undir þá sem mest hafa á milli handanna. Það er ekkert frá ríkisvaldinu í þessum kjarasamningum, í nálgun við þá eða í lausnum sem ríkisvaldið býður upp á fyrir þá sem minnst hafa milli handanna. Það er áhyggjuefni mitt.

Það er gott að búið er að ná kjarasamningum þrátt fyrir þessa ríkisstjórn, þrátt fyrir getuleysi hennar og viljaleysi til að mæta þeim sem minnst hafa á milli handanna. Áhyggjuefni mitt er að kjarasamningarnir muni ekki fá nægilega góðar viðtökur út af þeirri staðreynd að óréttlætið blasir við öllum (Gripið fram í.) haldi ríkisstjórnin áfram út allt þetta ár eins og hún byrjaði að hlaða undir forréttindastéttir og þá sem mest hafa á milli handanna og horfi ekki á nokkurn hátt á þarfir þeirra sem minnst hafa. Það hefur verið aðalsmerki (Gripið fram í.) þessarar ríkisstjórnar frá því að hún hóf skattalækkunarferli sitt hjá forréttindastéttunum í sumar og hún endar árið eins og hún hóf það.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef hér rakið er mikilvægt að styðja þetta mál vegna þess að með atbeina aðila vinnumarkaðarins er verið að snúa ríkisstjórninni af öfugþróunarleiðinni sem hún fetaði glöð og fús í gær. Það var enginn efi í huga nokkurs stjórnarþingmanns þegar samþykktar voru óréttlátar skattbreytingar á meðaltekjuþrepið. Við getum þakkað fyrir að hafa svo ábyrga aðila vinnumarkaðarins að þeir koma og hjálpa okkur að troða ofan í kokið á ríkisstjórninni hluta af skattkerfisbreytingum Samfylkingarinnar.