143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[16:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og taka undir með hæstv. ráðherra að því miður virðast ansi margir ekki komast í gegnum það þrönga nálarauga að eiga kost á húsnæði. Við sjáum þess dæmi bæði úr fjölmiðlum og í almennri umræðu hvar fólk hefur í raun og veru komið sér fyrir. Það hlýtur að þýða að við verðum að endurskoða hlutverk sveitarfélaganna.

Það er líka mitt mat að ef við viljum horfa til Íslands sem lands þar sem ungt fólk vill búa og starfa þá skipta ákveðnir hlutir máli. Mér hefur orðið tíðrætt um menntakerfið og að hér verði byggt upp fjölbreytt atvinnulíf þar sem fólk getur skapað sér eigin tækifæri, en húsnæðiskerfi og velferðarkerfið almennt eru auðvitað lykilatriði fyrir ungt fólk þegar það velur hvar það ætlar að búa. Þegar við horfum núna á heiminn þar sem fólk getur í raun farið um og komið sér fyrir hvar sem er þá á það að vera kappsmál stjórnvalda að húsnæðismarkaðurinn sé boðlegur fyrir ungt fólk sem horfir til framtíðar og að sjálfsögðu líka fyrir eldri kynslóðirnar sem hafa það kannski ekki í sér að flytja héðan burt og sitja þá uppi í óboðlegu kerfi.

Ég endurtek að við erum að sjálfsögðu reiðubúin til öflugs samráðs um hvernig við sjáum framtíðarhúsnæðisstefnu verða til.