143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[16:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Með hvaða hætti hafnað var að hækka persónuafsláttinn en staðinn vörður um tekjuskattslækkun fyrir þá í hátekjuþrepinu einkanlega er greinilega viðkvæmt mál fyrir hæstv. forsætisráðherra því að hann reynir að villa um fyrir mönnum í umræðunni hér í Alþingi og fara rangt með.

Hann sagði í ræðu sinni áðan að hann undraðist það ef það hefði verið krafa verkalýðshreyfingarinnar því að hann vissi betur, að ekki hefði verið samstaða um það í verkalýðshreyfingunni. Þess vegna væri ekki hægt að tala um að hækkun á persónuafslætti hafi verið krafa í samningunum og valkostur sem hafi verið hafnað af ríkisstjórninni. Hann vildi sem sagt ekki gangast við því að hafa hafnað því að hækka persónuafslátt í stað þess að gæla við fólkið í hátekjuþrepinu.

Nú er það svo að formlegt tilboð aðila verkalýðshreyfingarinnar til ríkisstjórnarinnar var kynnt fyrir efnahagsráðgjafa forsætisráðherra í gær, að hækka fremur persónuafsláttinn en að lækka tekjuskattinn á þá sem eru í efri endanum á millitekjuþrepinu og einkum á þá í hátekjuþrepinu. Það sem kom til baka úr því var að ríkisstjórnin hafnaði þeirri tillögu. Ég geri ráð fyrir að það sé ríkisstjórn þessa sama hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og undrast það hvers vegna hann gengst ekki við því hér á þingfundi að ríkisstjórn hans og hans eigin efnahagsráðgjafi hafi fengið formlegt erindi um þetta og hafi hafnað því í gær. Það getur ekki verið svo langt um liðið að hæstv. forsætisráðherra muni ekki að hann hafnaði tillögu um þetta efni í gær. Eða var það einhver önnur ríkisstjórn sem hafnaði erindinu um hækkun á persónuafslættinum? Nei, virðulegur forseti. En það er eðlilegt að forsætisráðherra vilji ekki gangast við því að hafa hafnað því í gær vegna þess að hann hefur sjálfur sagt á opinberum vettvangi að það sé sanngjarnast að hækka persónuafsláttinn, það sé góð tillaga. Þess vegna er það beinlínis í andstöðu við hans eigin málflutning að ríkisstjórnin hafni síðan tillögu um það efni.

Ein af ástæðunum fyrir því að við höfum áhyggjur af þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar — þ.e. ekki af tekjuskattslækkuninni því hún er fagnaðarefni, við hefðum bara lagt til aðra útfærslu á henni — er einmitt vegna útfærslunnar en hún þjónar pólitískum tilgangi. Það sem átti að reyna að gera var að lækka miðþrepið um 0,8% sem einkum kemur hinum tekjuhæstu til góða en það var ekki aðalmarkmið Sjálfstæðisflokksins með breytingunni. Aðalmarkmið Sjálfstæðisflokksins er öllum ljóst sem þekkja íslenska skattkerfið. Það er að draga úr muninum á neðsta þrepinu og millitekjuþrepinu til að gera það auðveldara að leggja niður þrepaskipt skattkerfi til að skapa þá röksemd að það sé orðinn svo lítill munur á neðsta þrepinu og miðþrepinu að ekki séu lengur efnisleg rök til að vera með tvö þrep heldur sé best að hafa það bara eitt. Eftir svar hæstv. forsætisráðherra áðan við andsvari um það hvernig hann teldi rétt að skipa tekjuskattsmálum þá er ástæða til að hafa af því áhyggjur að þessi fastheldni á að lækka tekjuskattsprósentuna, einkum fyrir fólk í hátekjuþrepinu, stafi af því að Framsóknarflokkurinn deili þeim pólitíska áhuga Sjálfstæðisflokksins að hverfa frá þrepaskiptu skattkerfi eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum og hverfa aftur í það tekjuskattskerfi sem skóp hér hinn mikla ójöfnuð í aðdraganda efnahagshrunsins á Íslandi.