143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Síðustu daga hefur matvælaframleiðsla Íslands verið mikið til umræðu, upp komið dæmi þar sem afurðastöðvar blönduðu erlendu kjöti og mjólkurafurðum saman við innlendar landbúnaðarafurðir án þess að neytendur og jafnvel framleiðendur hráefnis hérlendis hefði vitund um það. Um leið og þessi mál komu upp á yfirborðið byrjaði ákveðinn hópur þjóðfélagsins að tala fyrir frjálsum innflutningi á erlendum landbúnaðarafurðum.

Í fyrsta lagi: Lönd sem eru okkur fjær eru nú þegar farin að búa sig undir skort á matvælum. Þessi lönd eru að kaupa upp ræktarleg landbúnaðarlönd, matvælaverksmiðjur og stórbýli allt í kringum okkur. Ef við færum að treysta á önnur lönd til að sjá okkur fyrir mat mundi innlend framleiðsla minnka á móti innflutningi því að til hvers ættu bændur að vera að framleiða ef enginn vildi kaupa eða borða það sem framleitt er? Þegar erlendu löndin vakna svo einn daginn og sjá að tími er kominn hjá þeim, að þau eru komin hættulega nálægt því að vera ekki sjálfum sér næg, hvað verður það fyrsta sem þau gera? Fólk borðar ekki peningana sína svo að útflutningi verður hætt. Þar með verðum við klippt af hinu blómstrandi tré sem svo margir sjá í hillingum og hvað sitjum við þá uppi með? Lítið matvælaöryggi, sem nú þegar í dag er undir 50%, og vöntun á innlendri framleiðslu og þar með matvælum, en það tekur mörg ár að vinna það til baka ef það er þá hægt.

Í öðru lagi: Margir tala um að innlend matvælaframleiðsla sé of dýr. En í hvernig heimi búum við? Um einn milljarður jarðarbúa sveltur. Á hverjum degi deyja 40 þúsund manns úr næringarskorti og hvað vantar í þeim löndum þar sem þetta fólk býr? Betri aðstæður til ræktunar og landbúnaðar, meira jarðnæði með frjósemi og þéttum jarðvegi og meira vatn. Jarðarbúum fer ört fjölgandi, við erum komin yfir sjö milljarða manns. Íbúafjöldinn vex svo hröðum skrefum að alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar eru farnar að hafa miklar áhyggjur af þróuninni. Óvíst er hvort næg matvæli og vatn sé til á jörðinni til að standa undir þeim mannfjölda sem áætlað er að aukist í 8 milljarða fyrir árið 2025.

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp til að minna á gamalt spakmæli: Við fengum jörðina ekki að gjöf frá foreldrum okkar, við fengum hana að láni frá börnunum okkar. Ég vil ekki búa mínum afkomendum aðstæður (Forseti hringir.) eins og mun stefna í ef við förum að treysta á frjálsan innflutning. (Forseti hringir.) En að sjálfsögðu þarf að taka fyrir villandi vöruframleiðslu og merkingar matvæla hér innan lands.