143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í gær eignaðist ég óvænt skoðanabróður þegar varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurk. kom fram með efasemdir um skuldaniðurfellingar. Fram kom hjá honum að skuldaniðurfellingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar séu ekki efnahagslega hagkvæmar og aðgerðin ekki bara óhagkvæm heldur að hans mati líka óréttlát.

Eins og hann sagði, með leyfi forseta:

„Slík ráðstöfun fjármuna truflar mig mjög mikið og ég er hissa ef hún truflar ekki alla þingmenn.“

Efasemdarröddum fjölgar en það er ný staða að þingmaður stjórnarliða standi hér og tjái efasemdir sínar, sem er vel. Í framhaldinu veltir maður því fyrir sér hvort fleiri í þingflokki Sjálfstæðisflokksins deila þessum áhyggjum um réttmæti aðferðarinnar um boðaðar skuldaniðurfellingar ríkisstjórnarinnar. Eða eru þær bundnar við þennan eina varaþingmann?

Við vinstri græn höfum ásamt fleirum verið með slíkar efasemdir um hvort réttlætanlegt sé að útdeila skattfé til þeirra eignameiri með þeim hætti sem lagt var upp með, því að ekki var hægt að átta sig á neinu er varðar skuldamálaloforðið þegar svör við fyrirspurn um þessi mál komu hér fram í síðustu viku og má segja að forsætisráðherra hafi skilað auðu. Ekkert liggur fyrir enn þá um áhrifin og ég spyr: Hvar er reiknivélin sem lofað var, hvenær kemur hún?

Ég spyr líka: Hvað finnst þingmönnum, sérstaklega landsbyggðarkjördæmanna, um þetta þar sem íbúðaverð hefur verið mjög lágt og tekjur í lægri kantinum? Eru þeir sannfærðir um að þessi aðgerð komi sér vel fyrir þá? Eru þeir sammála mér og hv. þm. Oddgeiri Ottesen og fleirum sem setja spurningarmerki við þessa aðferðafræði um meðferð skattpeninga?