143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:32]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að hefja þessa umræðu en hann hefur verið einstaklega duglegur að láta til sín taka í þessum málaflokki.

Núna um áramótin hafa nokkrar verslanir og fyrirtæki hækkað verð á vörum sínum og finnst mér það miður, en vert er að geta þess að það hafa líka einstaka fyrirtæki og verslanir lækkað verð, ég kem aðeins inn á það á eftir.

Það er sífellt erfiðara fyrir einstaklinga og fjölskyldur að ná endum saman. Matarkarfan er há þrátt fyrir að hún hafi lækkað eitthvað á undanförnum árum. Einnig hafa, eins og við tölum oft um í þinginu, lánin hækkað og fastir póstar hafa hækkað. Ég tel því að hin venjulega íslenska fjölskylda hafi sífellt minna á milli handanna.

Mér finnst þessar hækkanir ekki alveg í takt við raunveruleikann. Eins og fram hefur komið hefur krónan, gjaldmiðill okkar Íslendinga, styrkst talsvert á undanförnum mánuðum, eða um rúm 6% á móti evrunni og um 10% á móti bandaríkjadollara. Einnig hefur heimsmarkaðsverð á ýmsum vörum lækkað um tugi prósentna. Má þar meðal annars nefna hveiti um 22%, sykur um 17% og korn um 41%.

Eins og ég sagði áðan hafa einstaka fyrirtæki og verslanir ákveðið að hækka ekki vörur og í einhverjum tilvikum hefur vöruverð lækkað en vert er að geta þess að sú lækkun er eingöngu brotabrot af því svigrúmi sem hefur skapast vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði og hækkunar á gengi.

Ég vil einnig taka undir orð hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur að vert er að skoða hvort nauðsynlegt sé að verslanir hafi langan opnunartíma, mikla yfirbyggingu og fleira, hvort það geti ekki haft einhver áhrif á vöruverð, og ef dregið yrði úr því hvort það mundi skila sér til neytandans. Það er alveg spurning um það. Ég tel að mikilvægt sé að auka gagnsæi í verðlagningu á vörum neytandanum í hag.