143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er ansi góð og menn koma víða við, enda af mörgu að taka. Ég tek undir með frummælanda þar sem hann fer yfir eignaraðild. Þetta á ekki einungis við hættu í matvöruverslun heldur alls staðar, að sá risi sem lífeyrissjóðirnir eru, sem ættu fyrst og fremst í öllu eðlilegu árferði að fjárfesta í útlöndum, þeir eru orðnir stórir eigendur að allra handa fyrirtækjum. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er fákeppni og við munum ekki losna við hana á næstu áratugum og kannski árhundruðum meðan við erum svona fámenn, það á jafnvel við stærri þjóðfélög.

Við komumst hins vegar ekki hjá því þegar við erum að ræða um samkeppni og vöruverð að líta í eigin barm. Það kemur að stórum hluta við okkur sem erum á Alþingi. Þetta hefur auðvitað með skatta og vörugjöld og stefnu til dæmis í landbúnaðarmálum að gera, kemur inn á það.

Sem dæmi má nefna þegar menn lögðu á sykurskattinn, sem að vísu var lagður m.a. á hjólbarða ef ég man rétt, þýddi það að með virðisaukaskattinum fóru 57% af sykri í ríkiskassann.

Miðað við þær tölur sem eru í gangi hefur gengisvísitalan eða innflutningsverð á ýmsum vörum ekki náð upp í gengisvísitöluna þannig að að ýmsu er að hyggja í því. Mér finnst að við ættum núna að nota tækifærið og grisja þennan vörugjaldafrumskóg, skatta- og gjaldafrumskóg, einfalda hann og gera hann skiljanlegan því að það mundi hjálpa okkur að ná fram akkúrat því sem við viljum, einhverju gegnsæi.

Á sama hátt get ég ekki skilið af hverju menn setja undir sama hatt landbúnaðarstefnu og hvíta kjötið og hefðbundnar búgreinar. Ég hef ekki enn þá fundið nein efnisleg rök fyrir því. Þarna er kjörið tækifæri fyrir okkur að lækka vöruverð á Íslandi og auka samkeppni. Við eigum að gera það.