143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hvað varðar niðurstöðu kosninga og síðan kosningar á Alþingi höfum við hér ákveðið fyrirkomulag. Það er ekki hægt að krefjast þess að vikið sé frá því eftir hentugleika með þeim hætti sem hér hefur verið kallað eftir. (Gripið fram í: Þetta var aldrei sjö manna …) Síðan er áhugavert að hlusta á umræður um það hlutfall sem hér myndast. Velti menn fyrir sér þegar verið er að kjósa í þriggja manna stjórnir hvaða hlutföll myndast þá.

Ég tel að þessi umræða öll einkennist af nokkrum misskilningi. (Gripið fram í: En af hverju …?) Staða málsins er einfaldlega sú að það er verið að kjósa í stjórn Ríkisútvarpsins, það er verið að kjósa níu einstaklinga. Hér kjósa menn gjarnan eftir flokkslínum og vænta þess að það sé gert, en það eru níu ólíkir einstaklingar með ólíkan bakgrunn og ólíka sýn á marga hluti. Ég treysti þeim öllum ágætlega sem þarna munu sitja. Ég sé hverjir eru í framboði og ég treysti þeim ágætlega til þessara starfa af því að þetta er ólíkur hópur einstaklinga sem getur vel unnið þessi störf. Ég minni á að það (Gripið fram í: … kosning.) má ætla að mörg okkar hér inni trúi lítt á það þegar menn koma hér upp háheilagir í framan yfir þessum málum (Forseti hringir.) og rifja síðan upp hvernig staðið var að málum á síðasta kjörtímabili. Ég tek undir (Forseti hringir.) orð hæstv. forsætisráðherra hvað það varðar. (BirgJ: … aga …)