143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:27]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það sætir nokkurri undrun að ekkert hefur komið fram hér í málflutningi stjórnarliða sem rökstyður þessa ákvörðun. Engin efnisleg rök sem mæla því bót að ætla að vera með sex stjórnarliða í stjórn Ríkisútvarpsins á móti þremur úr liði stjórnarandstöðu. Hvað er það sem ríkisstjórnarflokkarnir ætla að gera í stjórn Ríkisútvarpsins sem kallar á að þeir séu þar með aukinn meiri hluta? Hvaða fyrirætlanir eru það þegar menn þurfa frekar að vera með sex en fimm stjórnendur? Það hefur ekkert komið fram um það hvaða rök standa að baki þessu. Það er ekkert annað en valdagræðgi sem stendur að baki þessu fyrst menn geta ekki fært betri rök en þau sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom fram með áðan þegar hann segir að alltaf hafi staðið til að vera með fleira fólk, ekki fleiri fulltrúa. Af hverju eru menn þá ekki bara með 15 stjórnarmenn í Ríkisútvarpinu og alla úr Framsóknarflokknum? Væri það ekki miklu betra Ríkisútvarp sem menn fengju út úr því? Hvers lags eiginlega málflutningur er þetta?