143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

277. mál
[18:53]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, aldeilis ekki. Ég held að um veigamestu þættina séum við sammála, sem eru auðlindirnar og að koma í veg fyrir eignasöfnun á hendur fárra auðmanna.

Einn þátt gleymdi ég að ræða, það er sú staðreynd sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á, að Íslendingar eiga þúsundir fasteigna erlendis og hvort það sé ekki ákveðin ósamkvæmni fólgin í því að leggja blessun sína yfir slíkt en vera andvígur því hér á landi. Þá vil ég segja að ég hef síður en svo á móti því að erlendir menn eignist hér íbúðir eða húsnæði. Varnaðarorð mín beinast að landinu og auðlindunum en ekki að íbúðarhúsnæði, alls ekki. Og þótt kveðið hafi verið á um það í umræddri reglugerð hefur alltaf verið veitt undanþága frá slíku þannig að það beinist aldeilis ekki að því.

Það er rétt að það var á sínum tíma til góðs að verð á jörðum hækkaði eitthvað en spurningin er um hóf í þessum efnum eins og öllum öðrum. Það sem gerðist var að verðlagið var á forsendum auðmanna og varð til þess á endanum að leggja byggðir í auðn. Það er nokkuð sem við viljum ekki gera og þar held ég að við eigum aftur samleið í málflutningi okkar, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson.