143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna þeirra orða sem hér féllu þá er það auðvitað býsna furðulegt að vera hér viku eftir viku án þess að nokkur stjórnarmálefni að heitið geti séu á dagskrá þingsins en það er nú kannski frekar gleðiefni en áhyggjuefni fyrir okkur sum.

Það er hins vegar ánægjulegt í dag að sjá Peningamál Seðlabankans koma út og staðfesta að mörgu leyti það góða bú sem ný ríkisstjórn tekur við og þann mikla efnahagslega viðsnúning sem orðið hefur í landinu á skömmum tíma. Við sáum að hagvöxtur í landinu á liðnu ári varð ívið meiri en spáð hafði verið, verðbólgan er enn á niðurleið og mörg jákvæð teikn í okkar efnahagsmálum, þökk sé þrotlausu starfi fólks og fyrirtækja í landinu allt frá hruni.

Það eru hins vegar ýmsar blikur á lofti og það sem skiptir okkur mestu máli til að halda stöðugleika í efnahagsmálum í landinu er tvennt, annars vegar að halda verðstöðugleika og hins vegar að tryggja frið á vinnumarkaði.

Það er eitt þingmál sem ég sakna frá ríkisstjórninni og kalla eftir, eitt þingmál vil ég sjá frá ríkisstjórninni hér á dagskrá þingsins. Það er frumvarp um að afturkalla hækkanir ríkisstjórnarinnar á gjöldum á nýju ári, að ríkisstjórnin komi hér inn með frumvarp, eða fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, fylgi fordæmi sveitarfélaganna í landinu og hafi pólitískt þrek til að hætta við þær óhóflegu gjaldskrárhækkanir sem ákveðnar voru hér á nýju ári, ekki síst á skólagjöldum og á gjöldum á heilsugæslustöðvum en líka ýmsar verðlagshækkanir sem nú eru orðnar miklu hærri en verðbólgan er núna.

Ég kalla eftir því að ríkisstjórnin taki þátt í baráttunni gegn verðbólgunni og að ríkisstjórnin geri betur í því að koma til móts við aðila vinnumarkaðarins með aðgerðum sínum og fylgi því góða fordæmi sem Reykjavíkurborg setti með því að afturkalla gjaldahækkanir með öllu.