143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski af því hv. þingmaður er búinn að vera svo skamman tíma hér í þessum þingsölum að honum var ekki kunnugt um það að í mínu hjarta er stöðug og varanleg eftirspurn eftir framsóknarmönnum. Hv. þingmaður þarf ekki annað en að lesa bók sem kom út skömmu fyrir síðustu jól eða líta yfir feril minn síðustu fjögur árin til að skilja það að mestan part af þeim tíma var ég á hnjánum á biðilsbrókum gagnvart Framsókn. En förum ekki nánar út í það, við getum rætt það síðar.

Að því er varðar þá sex mánuði sem hv. þingmaður spyr mig um og hví mér sé svo brátt til farar útskýrði ég það bæði í ræðu minni og andsvari áðan að það eru ekki neinir sérstakir sex mánuðir, en ég útskýrði það af hverju það gætu verið tvö, þrjú ár. Kannski er það vitleysa hjá mér.

Það er hins vegar þannig að ég sit fyrir Alþingi í alþjóðlegum þingmannasamtökum þar sem þessi mál hafa verið rædd aftur og aftur og aftur. Gjörbreytt afstaða til orkuöryggis, til dæmis Atlantshafsbandalagsríkjanna til Evrópu, gjörbreytt afstaða varðandi orkuöflun innan Bandaríkjanna sem í staðinn fyrir að leggja pípur til að kaupa gas frá Asíu munu núna innan skamms leggja leiðslu til að selja það til Asíu. Þannig eru málin breytt.

Ég hygg að það sé rétt hjá hv. þingmanni að um náttúrulegt gas, sem er unnið með þessum óhefðbundnu aðferðum, gildi eins og um allt jarðefnaeldsneyti að það er endanleg auðlind. Ef tekst til með svipuðum hætti og í Bandaríkjunum er líklegt að þar kunni að vera um að ræða auðlind sem dugir áratugum saman, kannski fram eftir öldinni, það fer allt eftir því hvernig borgarar í ýmsum þéttbýlli ríkjum Evrópu taka á því máli. Það er klárt að partar af Evrópu, syðst í Evrópu og líka austast í Evrópu, munu ráðast í þetta af miklum þunga, eru þegar byrjaðir á því. Það getur breytt eftirspurninni (Forseti hringir.) og þar með þokað glugganum aftur.