143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Ég bið nú hv. þingmann fyrst af öllu að taka tillit til bernsku minnar. Ég er ungur þingmaður eins og á grönum má sjá, en mér er svo sem kunnugt um hlýhug hv. þingmanns til framsóknarmanna og hef fylgst með því með mikilli ánægju jafn lengi og ég hef verið í pólitík, þannig að ég veit að það slær í hv. þingmanni framsóknarhjarta að nokkru leyti, efast ég ekki um. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að eftirspurn hefur verið eftir framsóknarmönnum. Sú eftirspurn kom glögglega fram í síðustu kosningum þar sem fjórðungur landsmanna veitti flokknum atkvæði sitt landinu til gæfu.

Ég undrast enn asa þann sem hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra vill hafa í þessu máli vegna þess að helstu sjónarmiðin í því efni að fara hægt í því snúast öll um umhverfisáhrif eða allflest, alla vega í mínum huga. Ég geri betur grein fyrir því á eftir í ræðu minni. En mig undrar nokkuð að hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra skuli vilja flýta sér með þessum hætti.

Það er alveg rétt hjá honum sem hann sagði áðan að Bandaríkjamenn munu verða færir um að flytja út gas eftir þá jarðlagavinnslu sem þeir stunda núna, sem hefur að vísu alveg gríðarleg umhverfisáhrif og er einn mesti orkusóðaskapur sem maður hefur lengi séð. Það er nú önnur saga.

Ég undrast það enn og þess vegna spyr ég: Finnst hv. þingmanni að þessi sex mánaða umfjöllun þingsins hafi verið allt of langur tími? Finnst honum tímanum hafa verið illa varið?