143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:15]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka iðnaðar- og viðskiptaráðherra sérstaklega fyrir að taka þetta mál fyrir í þinginu, skýrslu ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu. Ég held að málið sé einmitt með þessum hætti að komast í mjög góðan farveg og ekki í neinum hægagangi nema síður sé, samkvæmt mínum skilningi að minnsta kosti.

Ég hef fylgst vel með þessu máli, ég er mikill áhugamaður um það og ég vil að það verði kannað ofan í kjölinn, hvað mælir með því og hvað mælir gegn því. Það er algjörlega eðlilegt að skiptar skoðanir séu um þetta mál í þjóðfélaginu. Mér finnst að á þeim stutta tíma frá því að skýrslan kom hingað inn í þingið hafi mjög mörg áhugaverð sjónarmið komið fram sem bæði styðja þetta mál og vekja upp ýmsar spurningar sem við þurfum að fá svör við áður en við höldum lengra.

Undanfarna daga hafa breskir fjölmiðlar fjallað um áhuga breska fjárfestingarfélagsins Atlantic Supergrid Corporation á sæstreng til Íslands. Þar er málið greinilega komið á ansi mikinn snúning og kannski meiri snúning en hér heima. Forsvarsmaður þessa félags heitir Edmund Truell og hann er sagður hafa áratuga reynslu í fjármálaheiminum og er m.a. stjórnarformaður London Pensions Fund Authority. Í viðtali við dagblöðin The Sunday Times og City A.M. er haft eftir Truell að hann sé í sambandi við stóra alþjóðlega fjárfesta og þeir séu reiðubúnir til að leggja fjármagn í þetta verkefni. Sú fjárfesting sé áætluð 4 milljarðar sterlingspunda eða sem samsvarar 750 milljörðum íslenskra króna samkvæmt bresku pressunni. Hér er því um gríðarlega stóra fjárfestingu að ræða og í raun og veru mjög athyglisvert að þessi áhugi fyrir verkefninu virðist vera til staðar, því að við erum að tala þarna um lengsta sæstreng í heimi til raforkuflutnings og vafalaust hlýtur þetta að vera mikil áhættufjárfesting.

Samkvæmt mínum upplýsingum sem ég fékk frá Landsvirkjun hefur hún átt einmitt nokkra fundi með Truell og ráðgjöfum hans. Meðal ráðgjafa hans er fyrrverandi orkumálaráðherra Bretlands. Landsvirkjun hefur eftir því sem ég kemst næst hitt fulltrúa lífeyrissjóða í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada sem Truell vinnur með og það hafa borist fregnir af því að fulltrúar Atlantic Supergrid hafa fundað með framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins á undanförnum mánuðum til þess að kynna þeim hugmyndir sínar um sæstreng milli Íslands og Bretlands.

Sæstrengur sem flytur raforku frá Íslandi til Skotlands hefur í mínum huga ekkert með Evrópusambandsaðild Íslendinga, já eða nei, að gera og afstöðu manna til þeirra mála. Íslendingar eiga að sjálfsögðu, burt séð frá því þrætumáli, að skoða öll viðskiptatækifæri sem geta verið þjóðinni til heilla á hverjum tíma. Við ætlum ekki að loka okkur inni á þessari eyju í Norður-Atlantshafi.

Mig langar að bæta því við að stór hluti þeirrar orku sem við mundum selja um þennan streng, líklega 30–40%, er umframorka sem nú þegar er til staðar og fer til spillis núna á meðan við erum að tala hér í þessum sal. Landsvirkjun hefur þurft að byggja virkjanir eftir því sem ég kemst næst sem eru nægilega stórar til þess að geta annað orkuþörf álveranna, jafnvel á versta tíma í afleitu vatnsári, en öll hin árin þegar vatnsbúskapur Landsvirkjunar er góður flæðir vatnið fram hjá virkjununum óbeislað og verðmæti sem þannig fara forgörðum skipta tugum milljarða króna.

Þetta er mál sem okkur Íslendingum er skylt að skoða af fullri alvöru og það er stórt, svo stórt að mikil vinna verður að fara fram áður en Íslendingar taka ákvörðun. Ég tel að við eigum að nota tímann vel fram undan til þess. Ég er alls ekki svo ósammála og jafnvel bara sammála því sem hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sagði í ræðu hér áðan að hraði og vandað verk þurfi ekki endilega að vera mótsagnir. Þessu vildi ég koma á framfæri í ræðu minni.