143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni fannst þetta áhugaverð ræða. Kannski af því hún var tilraun til að vera ekki ofan í hinum hefðbundnu skotgröfum sem þykir auðvitað mjög áhugavert þegar við ræðum þetta mál.

Tvískinningur, sagði ég. Já, mér fannst hv. þingmaður gefa það til kynna í ræðu sinni áðan að afstaða okkar byggðist á tvískinnungi og hann staðfesti það hér. Ég er ósammála þeirri túlkun.

Svo ég svari hv. þingmanni, hann þekkir alveg afstöðu mína, hún kom vel fram í ræðu minni: Nei, ég vil ekki að við gerumst aðili. (Gripið fram í: Þú sóttir um.) Það er ekki flókið. Ég hins vegar tel ekki að afstaða pólitískra flokka sé það eina sem þetta mál eigi að snúast um, ekki frekar en mörg önnur stórmál. Þess vegna er ég reiðubúin að leggja sum mál í dóm þjóðarinnar og treysti henni. Þetta er ekki flókið.