143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við búum við fulltrúalýðræði, þ.e. þjóðin kýs Alþingi á fjögurra ára fresti a.m.k. Frambjóðendur segja þjóðinni hvaða skoðun þeir hafa á vissum málum og í kjölfarið kýs þjóðin þá til þeirra starfa. Ef menn ætla svo þegar þeir hafa fengið það hlutverk að taka ákvörðun að vísa alltaf til þjóðarinnar, aftur til baka, og segja: Nei, ég vil ekki ganga í Evrópusambandið, menn vissu það alltaf, en ég ætla samt sem áður að láta þá taka ákvörðun um það af því þeir kusu mig — það finnst mér ekki vera lýðræði. Til þess kýs þjóðin fulltrúa á þing. Svo hefðu menn náttúrlega geta farið þá leið sem hefði verið hreinlegust, að spyrja þjóðina áður en þeir sóttu um aðild: Viltu að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu? Það hefði verið hreinlegasta spurningin og kannski er það enn þá hreinlegasta spurningin.