143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir 100 ár erum við báðir örugglega dauðir, en ekki íslenska þjóðin. Þess vegna þurfum við að hugsa mjög alvarlega um það hvað gerist eftir 100 ár.

Varðandi byggðasjóð. Jú, honum var ætlað að styrkja byggðir þar sem ákveðnar atvinnugreinar standa veikt og við fengjum örugglega heilmikla styrki úr þeim sjóðum. En mín reynsla af styrkjum er ekki góð. Hún er bara ekki góð. Við höfum haft á Íslandi Byggðastofnun og alls konar styrki, Vestfjarðaaðstoð o.s.frv. Mér sýnist að eftir því sem styrkirnir eru meiri þeim mun verr gengur í viðkomandi atvinnugrein og í viðkomandi byggðarlagi vegna þess að menn aðlagast styrkjunum. Það er það hættulegasta sem þú gerir, það er að styrkja einhvern allt of mikið. Að styrkja menn til sjálfshjálpar er allt í lagi en að styrkja menn varanlega, eins og mér sýnist að þessi sjóður geri, er stórhættulegt.