143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af því hvert þetta þing stefnir og hvert vinnubrögð þessa þings stefna. Ég sagði hér áðan að ég væri afar ósátt við þær ávirðingar sem ég og þeir sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni 2009 um aðild að Evrópusambandinu, erum látin sitja undir og sæta í greinargerð með þingsályktunartillögu um að draga umsóknina til baka, sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Þar segir, með leyfi forseta, í 2. mgr. forsögunnar, þ.e. í inngangi við athugasemdir:

„Miðað við það sem fram hefur komið í atkvæðaskýringum, yfirlýsingum þingmanna og fleiri gögnum má jafnvel leiða að því rök að ekki hafi í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir málinu heldur hafi þetta verið hluti af pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka við myndun ríkisstjórnar og atkvæðagreiðslan því tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna.“

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög alvarlegar ávirðingar. Hvað þýðir það þegar ríkisstjórn er farin að leggja fram mál þar sem hún notar rökstuðning í formi einhverrar kjaftasögu, ófullburða hugmyndir og kemur fram með svona ávirðingar á þingmenn í greinargerðum máli sínu til stuðnings? Hversu rökþrota eru menn þá? Þetta eru alvarlegar ávirðingar á þá 63 þingmenn sem sátu í þessum sal þegar greidd voru atkvæði um málið. Því á ekki að taka af léttúð. Það er þessari ríkisstjórn til skammar að rökstyðja mál sitt með þessum aumlega hætti. Aumlega hætti.

Ég sendi þess vegna forsætisnefnd formlegt bréf fyrir u.þ.b. 10 mínútum síðan þar sem ég fer fram á að ríkisstjórnin leggi þau gögn fram sem hún fullyrðir að séu til staðar. Ég fer fram á að að athugun sinni lokinni muni forsætisnefnd skýra (Forseti hringir.) frá því hverjir það voru (Forseti hringir.) sem greiddu (Forseti hringir.) ekki atkvæði sannfæringu (Forseti hringir.) sinni samkvæmt. En þangað til (Forseti hringir.) munum við öll (Forseti hringir.) sitja undir (Forseti hringir.) ámæli og grun (Forseti hringir.) um að hafa verið þessir þingmenn.