143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[14:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Jú, við erum að tala um fundarstjórn forseta vegna þess að ágreiningur er um dagskrána. Ég vil byrja á að taka undir þær óskir sem eru bornar fram að gefnu tilefni um að hæstv. utanríkisráðherra verði viðstaddur umræðuna vegna þess að sum okkar langar til að ræða málið efnislega. Það getur alveg tekið tíma vegna þess að þetta er stórt mál og þá er ekki til of mikils ætlast að liðsmenn stjórnarflokkanna taki þátt í umræðunni. Hugsanlega gæti það sparað tíma, hver veit.

Ég vildi aðeins undirstrika það að hér er ágreiningur um dagskrána. Við getum tekið fyrir enn og aftur slíka þingsályktunartillögu um að skjóta málinu til þjóðarinnar, ljúka málinu í eitt skipti fyrir öll, þ.e. ef málsstuðningur ríkisstjórnarflokkanna er ekki of hörmulegur til að geta hugsanlega sannfært þjóðina um að slíta viðræðum við Evrópusambandið.