143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:26]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég bíð eftir því að heyra í hæstv. utanríkisráðherra að koma með svör við þeim fyrirspurnum sem bornar hafa verið hér fram um framtíð greinargerðarinnar sem fylgdi þessari ótrúlegu þingsályktunartillögu. Það er eitt að þola þá ókurteisi af hálfu hæstv. utanríkisráðherra í gærkvöldi að vera sakaður um málþóf áður en maður hafði einu sinni tekið til máls í umræðunni um skýrslu utanríkisráðherra um Evrópusambandið. Það er annað fyrir þær fjölmörgu þjóðir sem Framsóknarflokkurinn þarf að eyða tíma sínum í á næstu vikum að fara til, Möltu og Kasakstan, til að biðjast afsökunar á margvíslegum rangfærslum. Hitt er svo annað mál að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki láta svo lítið, úr því að hann er hérna og hlustar á þessar umræður, að koma með einhverjar útskýringar, að svara mönnum. Þetta er náttúrlega argasti dónaskapur.