143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja, ef það mætti verða til að greiða fyrir þeirri ákvörðun hjá hæstv. forseta að ljúka nú þingfundi, að ég tek afsökunarbeiðni hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar gilda. Ég fyrtist ekkert við þótt hann finni að því að taugakerfi mitt er ekki orðið betra en það, eftir að hafa hlustað á ræðu t.d. hæstv. utanríkisráðherra fyrir nokkrum dögum og síðan nokkrar ræður í kvöld og frammíköll hans, að ég þarf nóttina til að jafna mig. En ég get lofað hv. þingmanni því að ég kem alveg eldfjörugur og sprækur hingað til þings á morgun og geri mitt eins og jafnan til að greiða fyrir þingstörfum.

En ég vil aftur, eins og ýmsir fleiri, þakka hæstv. forseta fyrir það hvernig hann hefur lagt gjörva hönd á sáttaplóginn hér í kvöld. En ég tel að hann yrði maður að meiri og elskaður og virtur enn meira en hann er af mönnum í kvöld ef hann mundi hleypa okkur, sem erum eins og viðkvæm blóm, í hvílu til að reyna að safna kröftum fyrir morgundaginn.