143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki einfalt að taka við af þessu næturljóði hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. En mig langar til að taka upp það sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir drap á í umræðunni fyrr í kvöld þar sem hún taldi að eina boðlega málsmeðferðin að því er varðar framvindu þessa máls væri að ljúka umfjöllun um skýrsluna í nefnd, koma því svo hingað til þingsins og þá væri komið að því að byggja umræðu um þingsályktunartillöguna á þeirri niðurstöðu. Þetta var mælt af skynsemi og það er ákall mitt til virðulegs forseta að beita sér í þágu uppbyggilegrar málsmeðferðar. Það væri þinginu sannarlega til framdráttar og ég tel að það sé full ástæða til þess áður en við göngum til nýs þingfundar á morgun að þingflokksformenn hittist og ræði með hvaða hætti hægt sé að koma þessu (Forseti hringir.) sem best fyrir þannig að morgundagurinn verði nú ögn gæfulegri en dagurinn í dag.