143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[16:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég styð þessa tillögu. Það er mjög mikilvægt að hún komist á dagskrá því að annars verður ekki tekin efnisleg afstaða til þess hvort atkvæðagreiðsla af þessu tagi eigi að fara fram með sveitarstjórnarkosningum eða ekki. Það eru alveg efnisrök fyrir því, eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir rakti áðan, að það eigi ekki að gerast með tilliti til sveitarstjórnarkosninga, en við skulum ræða það hér í efnislegri umræðu í þinginu.

Fyrir kosningarnar, þegar hæstv. fjármálaráðherra var spurður að því hvort ekki væri ómöguleiki í því fólginn að mynda stjórn með Framsóknarflokki og halda áfram með aðildarviðræður að fenginni niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá svaraði hann alveg skýrt að það væri stefna hans að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og „við munum standa við það“. Hann var spurður út í þær aðstæður sem nú eru upp komnar. Hann sagðist ætla að standa við það að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla. Hann er ítrekað búinn að segja að hún eigi að fara fram á fyrri hluta kjörtímabils. Þetta er tækifæri formanns Sjálfstæðisflokksins til að sýna (Forseti hringir.) að hann standi við orð sín.