143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Fyrr í umræðunni í kvöld kom fram að það væri kannski tilefni til að kalla saman utanríkismálanefnd til að reyna að fá einhverjar skýringar á þeim hálfkveðnu vísum frá hæstv. utanríkisráðherra af hverju þessi afturköllunartillaga komi beint ofan í skýrsluna sem hér er verið að ræða og mikilvægt væri að fá upplýsingar um það áður en umræðunni lyki.

Mér finnst heldur ekki óeðlilegt, miðað við þá umræðu sem var hér í gærkvöldi og í framhaldi af því sem fram hefur komið í viðræðum við hæstv. forseta um fundarstjórn forseta, að fá einhverjar skýringar á þeirri hugarfarsbreytingu hjá hæstv. ráðherrum sem voru í sjónvarpsfréttunum í kvöld þar sem var verið að spila gömul viðtöl við þá.

Það er eins og einhvers staðar sé undirliggjandi ástæða, einhver falin skýring sem við fáum ekki að vita um. Það hafa einhvers staðar gerst einhverjir undirborðssamningar, kannski við Evrópusambandið, einhverjar hótanir, einhverjar ógnanir sem hafa orðið til þess að hér er kastað inn sprengjum og menn eru algerlega ósveigjanlegir að leita nokkurra lausna. Ég held að það væri gagnlegt fyrir umræðuna, fyrst hæstv. forseti hefur ákveðið að halda hér áfram og reyna að klára þessa umræðu, að hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins komi hingað og geri hreint fyrir sínum dyrum þannig að hægt verði að fara til nefndarinnar með þær upplýsingar svo ekki þurfi að kalla þá sérstaklega þar til.