143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er klukkan langt gengin í eitt og við þekkjum það á öllum vinnustöðum, hvort það er um borð í togara eða annars staðar, að þar er lögbundinn hvíldartími. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort það eigi ekki líka við um þennan vinnustað. Mörg okkar eru að fara að stýra fundi í fyrramálið og við þurfum að vakna mjög snemma til að komast þangað í tæka tíð. Það eru ekki margir tímar til að hvíla sig ef maður á að sinna vinnuskyldu sinni.

Ég og hæstv. forseti þekkjum það vel frá fyrri tíð í sjávarplássi að þegar mikill afli barst að landi þurfti fólk að vinna fram eftir til að bjarga hráefni ef aflinn lá undir skemmdum. En liggur eitthvað undir skemmdum hér í kvöld, herra forseti? (ÁPÁ: Orðspor Sjálfstæðisflokksins.) Hvað liggur undir skemmdum þannig að við þurfum að vinna hér fram í nóttina og brjóta vinnuverndarlöggjöf og ganga á lögbundinn hvíldartíma til að bjarga því? Ég bið hæstv. forseta að íhuga það. Það er engin ástæða til að vinna hér fram í nóttina. Það ætti að skoða það samkomulag sem stjórnarandstaðan (Forseti hringir.) hefur lagt fyrir hæstv. forseta og ná sáttum um framgang þessara mála.