143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

staða ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[11:14]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir fyrirspurnina.

Já, ég og hv. þingmaður erum svo sannarlega sammála um þetta. Í mínum huga er fátt mikilvægara en að við komum fram með skýra stefnu varðandi húsnæðismálin. Þegar Alþingi fól mér það verkefni að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála tók ég ákvörðun um að útvíkka vinnuna út frá því sem Alþingi hafði lagt til og skipa sérstakan samvinnuhóp sem allir þeir sem höfðu áhuga á húsnæðismálum gátu tilnefnt fulltrúa í. Mjög mikil vinna hefur verið í ráðuneytinu þannig að ráðuneytið hefur nánast verið undirlagt þegar samvinnuhópurinn hefur verið að funda.

Síðan tók ég líka ákvörðun um að leggja til að haft yrði samráð við aðila vinnumarkaðarins í tengslum við kjarasamningana sem hluta af loforðum stjórnvalda, að þegar drög að tillögum verkefnisstjórnarinnar mundu liggja fyrir yrði sest niður með þeim.

Einnig kemur fram í skipunarbréfi verkefnisstjórnarinnar að henni er líka ætlað að eiga náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, SFF og Íbúðalánasjóð. Það er þannig að sambandið er núna með áheyrnarfulltrúa í verkefnisstjórninni.

Ég hef líka einmitt rætt það lauslega og mun ræða það við alla formenn stjórnarandstöðuflokkanna að einnig verði sest niður með formönnum stjórnarandstöðunnar þegar við sjáum drög að tillögum til að upplýsa þá og eiga þetta samtal um hvernig við viljum hafa húsnæðiskerfið.

Ég tel að húsnæðisstefnan eigi að endurspegla þann fjölbreytileika sem er í íslensku samfélagi, það sé í raun ekki einhver ein lausn sem henti öllum, það sé ekki þannig að hægt sé bara að tryggja það að allir kaupi eða allir leigi, heldur þarf að vera með (Forseti hringir.) valkosti. Tryggja þarf að fólk búi við (Forseti hringir.) öryggi, þannig hefur þessi vinna verið lögð upp.