143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum eina mjög nýja skýrslu sem er hér á borðum þar sem dregið er upp að það er ekki ákjósanlegt fyrir Ísland að vera innan Evrópusambandsins. Framleiðni innan Evrópusambandsins er í skýrslunni einmitt sögð vera lítil og minni en á Íslandi, ef ég man rétt, í það minnsta minni en í Bandaríkjunum svo dæmi sé tekið. Það hafi ekki náð sér upp úr kreppu meðan Bandaríkjamenn gerðu það. Vextir eru ekki þeir sömu alls staðar innan Evrópusambandsins, þeir eru alla vega. Verðbólga er alla vega líka, þannig að þetta er ekki eins einslitt og hv. þingmaður telur hér upp.

Það er líka mikilvægt að koma því að, úr því að hv. þingmaður rifjaði upp stutta veru sína á flokksþingi framsóknarmanna, að á sama þingi var felld sú tillaga að halda áfram viðræðum. Þetta var mjög undarlegt flokksþing hjá okkur hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni. En það lýsir kannski því að málið er býsna flókið og margar skoðanir á því.

En það er ekki hægt að gera lítið úr því, eins og mér finnst hv. þingmaður gera, þegar fjöldahreyfing kemst að því og ályktar að hag lands og þjóðar sé best borgið (GStein: Spurning … þjóðar.) utan Evrópusambandsins. Þjóðin kaus þessa flokka til að fara með málefnin hér og stjórnarandstöðu … (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)Ég svaraði þessari spurningu hér áður. [Frammíköll í þingsal.]