143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við erum nú komin á þann stað í þessari umræðu að við erum farin að ræða þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra um að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem samþykkt var á Alþingi 16. júlí 2009.

Við höfum átt í orðaskiptum síðustu daga sem vonandi heyra nú sögunni til og við getum tekið til við að ræða málin út frá efni málsins. Eins og fram kom í andsvari af minni hálfu áðan vonast ég til þess að unnt verði á næstu dögum að ná einhverri línu í það með hvaða hætti menn vilja nálgast þá vinnu sem í fyllingu tímans mun leiða til niðurstöðu í þessu máli.

Á sama hátt vonast ég til þess að við getum skoðað aðrar tillögur sem fram hafa komið. Ég hef þegar vikið að tillögu hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem ég tel vel fram setta og kalla á alvöruumræðu á vettvangi utanríkismálanefndar og eftir atvikum í þinginu. Vonir mínar standa með öðrum orðum til þess að við getum að minnsta kosti náð sæmilegri sátt um það hvernig við nálgumst viðfangsefnið og hvernig við vinnum það þannig að við getum, eins og ég sagði áðan í andsvari, einbeitt okkur að efnisþáttum frekar en formsatriðum í því sambandi sem hér er um að ræða.

Það er auðvitað ljóst að Evrópusambandsmálin hafa verið umdeild á Íslandi í langan tíma. Þegar hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi í ræðu sinni að ríkisstjórnin núverandi hefði rofið friðinn með því að leggja fram þá tillögu sem hér er um að ræða finnst mér það harla mikil einföldun. Alveg eins mætti segja að tillagan um aðildarumsókn frá sumrinu 2009 hafi rofið friðinn. Kannski var enginn friður, kannski voru átökin fyrir hendi hvort sem er. Kannski hafði verið tekist á um þau í kosningum innan flokka og milli flokka. Upphaf ágreinings, jafnvel djúpstæðs ágreinings, um þessi efni verður ekki rakið til föstudagsins í síðustu viku þó að annað mætti halda af sumum ræðum sem hér hafa verið fluttar.

Nú er ljóst eins og margoft hefur komið fram að við Íslendingar eigum mikil og náin samskipti við Evrópusambandið á ýmsum sviðum. Þar munar mest um samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, sem tók gildi fyrir 20 árum, en samstarfið er á fleiri sviðum. Þar ber hæst Schengen-samstarfið sem er sérstakt samstarf á grundvelli sérstaks samkomulags sem Ísland, Noregur og ýmsar þjóðir Evrópusambandsins eiga aðild að.

Það er líka rétt sem fram hefur komið að Evrópusambandsríki eru í dag okkar stærsti markaður, okkar helstu viðskiptaríki eru á þessu svæði, þannig að það sem gerist á vettvangi Evrópusambandsins skiptir okkur máli, það sem gerist í þróun efnahagsmála á Evrópusvæðinu skiptir okkur máli, í því liggja miklir hagsmunir.

Spurningin er ekki um það, og ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra í þeim efnum, að kljúfa sig frá Evrópu, skilja á milli Íslands og Evrópu eða fjarlægja sig Evrópu, það er enginn að tala um það. Spurningin er hins vegar hvort við viljum fara það sem menn kalla alla leið, gerast aðili að Evrópusambandinu með þeim kostum og göllum sem því kunna að fylgja og stíga það skref sem í mínum huga er miklu stærra en það samstarf sem þegar er fyrir hendi hvað varðar fullveldisframsal, framsal ríkisvalds á einstökum sviðum sem innan Evrópusambandsins er miklu víðtækara og ristir dýpra en það sem á sér stað miðað við núverandi fyrirkomulag okkar tengsla við Evrópusambandið.

Til að koma þessu frá mér í tiltölulega einföldum orðum vil ég segja að ég tel enga mótsögn í því að vilja gott samstarf við Evrópu og Evrópuþjóðir á þeim sviðum þar sem hagsmunir liggja saman og svo hins vegar að telja að Ísland eigi ekki að gerast aðili að Evrópusambandinu. Þetta finnst mér skipta verulegu máli í þessari umræðu vegna þess að oft er látið í veðri vaka að ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um að leggja fram tillögu — það var ekki ákvörðun um að slíta viðræðum heldur ákvörðun um að leggja fram tillögu um að draga umsókn til baka — væri einhvers konar grundvallarbreyting í utanríkisstefnu sem fæli í sér að við værum að hverfa frá samstarfi við vestrænar þjóðir og horfa eingöngu til annarra átta. Þetta er auðvitað bara fullkominn áróður. Við getum átt góð samskipti, mikil og náin við nágranna okkar í Evrópu án þess að það hindri okkur í því að eiga viðskipti og samskipti í aðrar áttir líka. Og það er kannski einn af kostunum við stöðu okkar eins og hún er í dag að vera með rík og góð tengsl við Evrópu þar sem hagsmunir okkar á fjölmörgum sviðum eru vel tryggðir en hafa jafnframt svigrúm til að leita á eigin forsendum til annarra átta. Það skiptir verulegu máli í mínum huga.

Ég vil líka draga það fram að núverandi ríkisstjórn hefur lýst því yfir og byrjað að framfylgja því að efla tengsl, ekki bara til Evrópu heldur líka til okkar næstu nágranna í vestri, vestnorrænna ríkja, Kanada, Bandaríkjanna, og þar held ég að séu líka miklir möguleikar fyrir hendi. Þessir möguleikar bætast við það sem við höfum í samskiptum við Evrópu, koma ekki í staðinn og hindra ekki að við getum áfram átt góð samskipti við Evrópu. Það er hræðsluáróður að halda því fram að þetta sé eitthvað annaðhvort eða, mikill hræðsluáróður.

Það er líka hræðsluáróður að halda því fram að það að draga aðildarumsóknina til baka leiði til þess að kjör okkar eða aðstæður í samskiptum við Evrópuríki versni frá því sem nú er. Ég held að ekki hafi verið bent á neitt atriði sem hönd á festir í því sambandi, ekkert sem skiptir máli sem ætti að leiða til þess að hagsmunum okkar ætti að vera verr fyrir komið ef við drögum aðildarumsóknina til baka. Mér finnst mikilvægt að árétta þetta og telji menn að þeir hafi eitthvað fyrir sér í því að samskipti okkar við Evrópu eða viðskiptakjör muni með einhverjum hætti versna eða við einangrast gagnvart Evrópu lýsi ég eftir því að þau sjónarmið komi fram í þessari umræðu. Ég held að þá væri mikilvægt að þau sjónarmið kæmu fram með rökstuddum hætti.

Þetta er stutt inngangsræða og að lokum vil ég árétta að sú niðurstaða Sjálfstæðisflokksins á síðasta landsfundi, og mörgum landsfundum þar á undan, að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan byggir á langvarandi umræðum um þessi mál innan flokksins þar sem ekki hafa allir verið samstiga. Menn hafa haft mismunandi skoðanir. Rök hafa verið prófuð og rædd, bæði á hinum flokkslega vettvangi og eins annars staðar, og þetta hefur verið niðurstaðan. Menn hafa mismunandi sjónarmið um mikilvæga þætti í þessu sambandi, það eru mismunandi sjónarmið varðandi gjaldmiðlamál, hugsanlega upptöku evru, hver þau áhrif væru. Menn hafa fært rök fyrir því, bæði með og á móti, að það gæti að sumu leyti verið okkur í hag að taka upp evru, að sumu leyti gæti það verið okkur í óhag. Kannski verður aldrei hægt að reikna út niðurstöðuna úr því hagsmunamati, það verður kannski alltaf á endanum pólitískt mat, byggt á rökum eða gagnrökum hvað menn telja í því sambandi.

Ég leyfi mér til dæmis að halda því fram að það hafi hjálpað íslenskum efnahag á síðustu kreppuárum að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil. Ég held að það hafi auðveldað okkur að ná okkur eftir efnahagsáfallið 2008 að hafa okkar eigin gjaldmiðil. Menn hafa bent á ýmsa þætti sem geta verið jákvæðir varðandi evruna en menn verða líka að horfa á hina neikvæðu þætti.

Ég hef ekki náð að víkja að sérlausnum sem nokkuð hafa verið til umræðu hér síðustu daga en verð að koma inn á þær í síðari ræðu þegar tækifæri gefst. Ég vek þó athygli á þeim grundvallarniðurstöðum skýrslunnar að varanlegar undanþágur séu ekki möguleiki, að möguleiki til sérlausna sé lítill (Forseti hringir.) og takmarkist við mjög afmörkuð svið ef litið er til reynslu annarra ríkja.