143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að árétta að athugasemdir mínar varða ekki góð störf virðulegs forseta heldur aðallega hvernig hæstv. forsætisráðherra kemur fram við þingið í þessu efni. En til að hafa það alveg skýrt er ég líka ósammála virðulegum forseta um að hægt sé að halda efnislega umræðu núna um málið fyrir fyrirhugaðan formannafund, nema að því gefnu að það sé fyrirséð að ekkert gerist á umræddum fundi. Það eru einu hugsanlegu kringumstæðurnar sem ég get ímyndað mér þar sem er algjörlega gefið fyrir fram að ræðurnar ættu að vera nákvæmlega eins fyrir og eftir þann fund. Með fullri virðingu og með þökk fyrir góð störf virðulegs forseta mótmæli ég athugasemd forseta og er henni ósammála.