143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að vekja athygli á stöðu menningarsamninga sem sveitarfélögin hafa gert við ríkið og eru nú í uppnámi. Ljóst er að það hefur gengið allt of hægt að þoka þessum málefnum áleiðis. Málið hefur verið í þeim farvegi síðan fyrir áramótin og því ekki fengið neinn niðurstöðupunkt. Ekki er búið að undirrita menningarsamninga sem þýðir, ef ég tek dæmi af mínu svæði sem er menningarráð Eyþings, að borist hafa 130 umsóknir þangað um verkefnastyrki, 28 umsóknir um stofn- og rekstrarstyrki, og auðvitað átti að gera ráð fyrir því, eins og vera bar, að úthluta styrkjum upp úr áramótum en því miður hefur það ekki verið hægt. Nú er svo komið að sumir hafa dregið þessar umsóknir til baka. Mjög mörg stór verkefni eru þarna undir. Það er mikilvægt að minna á að þetta eru ekki bara menningarverkefni, þetta er jú atvinnuskapandi verkefni og forsenda margra þeirra til þess að komast á koppinn er auðvitað styrkur menningarráðanna í gengum ríkissjóð.

Mig langar að hvetja hv. allsherjar- og menntamálanefnd og formann hennar til að taka þetta mál upp og skoða þau verkefni sem þarna eru undir og skoða hvað veldur því að illa gengur að koma þessu á koppinn. Til að menningarlífið komist í gang og þau atvinnuskapandi verkefni sem þar eru undir, sem styðja við blómlega atvinnustarfsemi á landsbyggðinni, er afar mikilvægt að þessu verði komið í góðan og fastan farveg sem hefur því miður, eins og ég segi, ekki orðið enn sem komið er.