143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:24]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Sú þingsályktunartillaga sem um ræðir er mjög góð að mínu mati vegna þess að henni fylgir meðal annars skýrsla sem kom örfáum dögum áður og mér fannst skýrslan sérlega góð og viðaukarnir með henni. Hún svaraði mjög mörgum spurningum sem ég hafði. Mér finnst það mjög góður grunnur og tel að við getum dregið ályktun af þessari skýrslu. Mér finnst hún meiri háttar plagg, ekki minni háttar plagg. Það er algjörlega mín skoðun.

Varðandi það af hverju við þurfum að slíta hefur það komið fram nokkrum sinnum, t.d. vegna þess að báðir stjórnarflokkarnir eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið. Æðsti maður Evrópusambandsins, Barroso, sagði í ræðu síðasta sumar að það vildi fara að fá skýr svör. Klukkan tifar, sagði hann. Hann sagði þetta í samtali við hæstv. forsætisráðherra okkar, Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Það er verið að kalla eftir ákvörðun þaðan þannig að á þeim forsendum ákvað hæstv. ríkisstjórn að leggja fram þessa þingsályktunartillögu og koma með skýr svör sem kallað var eftir. Það hefur komið fram hjá Evrópusambandinu að við getum sótt um aðild síðar. Við erum ekki að útiloka okkur frá einu eða neinu. Ef og þegar aðrir stjórnarflokkar taka við stjórnartaumunum er það þeirra að ákveða hvert skal halda í utanríkismálum þjóðarinnar. Ég tel að nefndastörfin á Alþingi séu mjög góð. Þar fer fram mjög góð vinna og við fáum til okkar gesti. Eins og hv. þingmaður veit er oft dýpri umræða þar sem varpar mun skýrara ljósi (Forseti hringir.) á málin og yfirleitt er nefndin sammála um niðurstöðuna þannig að ég bind miklar vonir við þá vinnu.