143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[15:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er erfitt fyrir stjórnmálamenn og framkvæmdarvaldið að framfylgja verkefni sem viðkomandi hefur litla trú á. Þeir stjórnmálamenn sem ganga til kosninga og lofa kjósendum sínum, segja: Flokkurinn minn er ekki hlynntur aðild, við teljum það ekki best fyrir Ísland en við viljum að kjósendur fái að kveða upp úr með það í þjóðaratkvæðagreiðslu — þá verður viðkomandi flokkur að standa við það.

Það er ekki ríkisstjórnin sem verður í stöðugum viðræðum við Evrópusambandið. Við vorum með mjög stóra og yfirgripsmikla samninganefnd með embættismönnum og fagfólki og ýmsum aðilum sem sáu um þennan málarekstur fyrir Íslands hönd en svo er auðvitað einstakra ráðherra að eiga samskipti á sínum málasviðum. Ég held að enginn ætti að óttast að ekki væri hörð hagsmunagæsla þeirra aðila sem leggja upp í þann leiðangur og eru mjög tortryggnir í garð sambandsins. Vissulega mundi ég vilja að það væri minn flokkur, Samfylkingin, sem leiddi slíkar viðræður en aðalatriðið um hvort viðræðurnar eigi að fara fram er að úr því sé skorið í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og lofað hefur verið.