143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð eiginlega að biðja um skýringar á tilteknum orðum í ræðu hv. þingmanns sem komu mér á óvart. Hv. þm. Kristján L. Möller komst einhvern veginn þannig að orði um Framsóknarflokkinn að hann skildi ekkert í þeim sinnaskiptum sem orðið hefðu hjá Framsóknarflokknum í þessu máli. Ég velti því þar af leiðandi fyrir mér hvort kynni hv. þingmanns af þeim flokki séu þau að hann sé sérstaklega stefnufastur flokkur, t.d. í Evrópumálum. Er það rangt munað hjá mér að Framsóknarflokkurinn sé í okkar minni, sem munum svolítið aftur í tímann, búinn að fara algerlega heilan hring í þessum málum frá því að þar var formaður Steingrímur Hermannsson og fór í kosningabaráttu undir þeim formerkjum að það væri „xB, ekki ESB“, „Allt er betra en íhaldið“ og ýmislegt fleira gott og var mjög harður á því að Ísland ætti ekki að ganga í Evrópusambandið? Við tóku tímar Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur sem voru áköf í að færa flokkinn í átt að aðild að Evrópusambandinu og töluðu aktíft fyrir því að breyta stefnu flokksins. Um tíma var Framsóknarflokkurinn orðinn býsna Evrópusinnaður eins og kunnugt er, hafði það meðal annars á stefnuskrá sinni fyrir næstsíðustu kosningar að sækja bæri um aðild, að vísu með tilteknum skilyrðum, og yfir í það að núna er flokkurinn aftur kominn nokkurn veginn á sama stað á hringnum og hann var fyrir 15, 20 árum, að vera mjög eindreginn andstæðingur aðildar.

Sögulega séð held ég að það væri fróðlegt að heyra hvað er á bak við þessi ummæli hv. þm. Kristjáns L. Möllers um að hann botni alls ekkert í því hvernig Framsóknarflokkurinn hefur verið að aka sér til í þessum málum. Ég vil gjarnan fá að heyra hvað að baki liggur.