143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Mér þótti hún mjög góð og gaman að við getum rætt lýðræðið í aðeins víðari skilningi en aðeins í þessu máli.

Hv. þingmaður talaði um auðmýkt stjórnmálamanna gagnvart fólkinu í landinu. Mér finnst það svolítið merkilegur málflutningur og jafnvel fyndinn, þó líka sorglegur, þegar stjórnmálamenn segja hreinlega opinskátt: Það gengur ekki að setja þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin gæti tekið einhverja allt aðra ákvörðun en þá sem við viljum. Í mínum huga eru það einmitt rök fyrir því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, þegar þjóðin er ósammála stjórnmálamönnunum. Mér finnst það fínt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í orð sem féllu á síðasta kjörtímabili þegar verið var að samþykkja þingsályktunartillögu um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hefja samningaviðræður. Þá sagði hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, með leyfi forseta:

„Ég hef þá sannfæringu að Evrópusambandið snúist um hagsmuni á forsendum 20. aldarinnar en ekki þeirrar 21. Ég hef líka sannfæringu fyrir því að það séu breyttir tímar á Íslandi. Ég hef þá sannfæringu að í svo stóru máli eigi almenningur allur milliliðalaust að fá aðkomu að aðildarsamningi Íslands og Evrópusambandsins og segi já.“

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að áður í ræðum hafa aðrir hv. þingmenn gagnrýnt hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir nákvæmlega þessa ræðu. Þegar ég les hana sé ég ekki betur en þetta sé sú auðmýkt sem hefur verið gegnumgangandi, bæði í stjórnarsetu hv. þingmanns og nú í svokallaðri stjórnarandstöðu, að sýna þjóðinni þá auðmýkt að hlusta þótt við séum ekkert endilega sammála henni. Það er það sem við eigum að gera. Þetta er ekki þannig að á fjögurra ára fresti fáum við einn bókstaf og megum þá gera það sem okkur sýnist. Það er kannski lýðræði 20. aldarinnar en ekki 21. aldarinnar. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þetta vegna þess að ég veit að það hefur verið talað um þetta hérna í pontu.