143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem öðru sinni upp undir þessum lið út af orðum hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur. Ég heyrði ekki betur en hv. þingmaður teldi þetta venjulegt mál af því að ekki væri algengt að hæstv. ráðherrar væru hér til að hlusta á öll mál o.s.frv. Þetta er stórkostlegt deilumál í samfélaginu. Það hafa 50 þúsund manns skrifað undir áskorun um að þeirri tillögu sem við erum að ræða verði vikið til hliðar og að þjóðin fái að segja til um hvernig verður farið með framhaldið. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma í morgun gefur hæstv. heilbrigðisráðherra í skyn að það sé eitthvað í spilunum. Er þá óeðlilegt að við sem erum í þessari umræðu og erum að undirbúa okkur fyrir næstu ræður viljum kalla hingað inn ráðherra til að fá þá til að skýra mál sitt og taka þátt í umræðunni og hlusta á hv. þingmenn?