143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við flokksfélaga minn, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, um það hvort það er skynsamlegt að við hlustum á ræður sjálfstæðismanna en mér finnst það afar óþægilegt engu að síður að lesa um afstöðu manna hér og þar og þurfa svo að svara því í þingsal. Mér finnst það vera vond umræðuaðferð. Þegar menn hafa kallað eftir því að hér verði rökræða, hér verði málefnaleg umræða, hér verði gegnsæ og vönduð umræða þá er það mjög erfitt þegar maður hefur ekki þann aðila sem stendur fyrir málinu til þess að ræða við.

Ég ætla að biðjast velvirðingar á því að nefna enn einu sinni við hæstv. forseta tvær aðrar tillögur sem við leggjum mikla áherslu á, a.m.k. ég, að fari til nefndar áður en umræða hefst í utanríkismálanefnd. Það á eftir að ræða þær; við höfum 15 mínútur í hvorri tillögu til þess og við verðum að nýta þann tíma ef við ætlum að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Ég sé ekki að undir neinum kringumstæðum verði hægt að koma þessu máli til nefndar fyrir helgina ef það á að gerast í slíkum ófriði. (Forseti hringir.) Við eigum þá eftir að ræða það allan föstudaginn og laugardaginn (Forseti hringir.) ef það á að hafast og jafnvel sunnudaginn (Forseti hringir.) þar á eftir líka.