143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að mikilvægt er að fá efnislega niðurstöðu í málið. Það var ekki alveg auðvelt að skilja fjármálaráðherra í ræðu hans hér áðan. Vissulega opnaði hann á þjóðaratkvæðagreiðslu en það mátti líka skilja á honum að hann væri veikur fyrir því að leggja þá tillögu sem hér er til umræðu fyrir þjóðina. Það væri ekki til þess að útkljá málið, eins og hann sagði sjálfur að þyrfti að gera í þjóðaratkvæðagreiðslu nokkrum dögum fyrir kosningar. Þá væru menn að kjósa á milli þess að halda ekki áfram og að slíta og sá valkostur að kjósa með áframhaldandi aðildarumsókn væri ekki í boði. Það væri því eiginlega alveg tilgangslaus þjóðaratkvæðagreiðsla.

Ég er sammála hv. þingmanni um að um þetta mál verður þrætt í landinu ef ætlun stjórnarflokkanna er að gera það sem Þorsteinn Pálsson orðaði svo vel á iðnþingi um daginn, að leyfa ákveðnum hópum í landinu að kúga aðra hópa í krafti sérhagsmuna. Þannig ástand varir aldrei að eilífu. Það ber alltaf dauðann í sér og sprengiaflið viðhelst undir loki kúgunarinnar. Þar af leiðandi held ég að eina skynsamlega leiðin sé að halda áfram á þeim forsendum sem lagt var upp með.

Vegna þess ósannindaspuna sem stjórnarflokkarnir hafa stundað um afstöðu Vinstri grænna, hversu ómöguleg fólki í öðrum löndum finnist hún, vil ég einfaldlega segja: Ég hef útskýrt það fyrir viðmælendum mínum af ýmsu evrópsku þjóðerni og í æðstu stöðum Evrópusambandsins — fyrir þremur fulltrúum í framkvæmdastjórninni, fyrir nokkrum ráðherrum og einum forsætisráðherra — hver afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er í þessu máli. Engum hefur þótt það óeðlilegt að sótt hafi verið um á þeim forsendum. Engum hefur þótt óeðlilegt að ráðherrar héldu fyrirvara um að þeir væru ekki tilbúnir að segja fyrir fram að þeir vildu ganga í Evrópusambandið og áskildu sér rétt til að vera á móti samningi í fyllingu tímans.