143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka spurninguna. Klukkan er reyndar korter í tvö og það hafa borist ýmsar fregnir af afstöðu annars forustumanns ríkisstjórnarinnar. En tillaga VG hefur legið hér í þinginu um tíma.

Ég verð að segja að mér þætti eðlilegt að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram fyrr en undir lok kjörtímabilsins. (Gripið fram í: Fyrir lok.) Akkúrat á þessari stundu er ég ekki til — en það er heldur ekki mitt að ákveða það, það þarf að vera einhver niðurstaða um hvað er heppileg tímasetning á slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er mál sem er þess eðlis að ef við segjum sem svo að það færi í þjóðaratkvæði undir lok kjörtímabilsins og síðan yrði samþykkt að aðildarviðræður ættu að halda áfram, þá færum við inn í kosningabaráttu sem snerist um hver ætti að leiða aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Mér sem Evrópusinna og komandi úr Evrópuflokki fyndist það allt í lagi, en ég held samt að það væri ekkert sérstaklega lýðræðislegt. Ég held að við ættum að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna fyrr en seinna, en nákvæmlega hvenær ætla ég að ræða á öðrum tíma sólarhringsins.