143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég biðst velvirðingar á að hafa verið hvassyrtur við hæstv. forseta því að hann hefur nú viðurkennt að hann hafi engin tök á því að kalla formennina í salinn, þeir séu bókstaflega að snupra okkur hér og neiti að vera við umræðuna.

Hæstv. forseti hefði þó haft eitt úrræði, það að hætta umræðunni og ákveða að færa hana yfir í dagsbirtu þar sem ekki þyrfti að gera viðkomandi ráðherrum rúmrusk heldur gefa þeim þannig tækifæri á að vera hér og sinna hlutverki sínu. Það tækifæri hefur hæstv. forseti enn þá. Við getum lokið umræðunni hér. Næstur á mælendaskrá er varaformaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir. Það er hægt að fara með þá ræðu fram á þriðjudaginn og ljúka henni þá.

Ég er búinn að spyrja um það fimm eða tíu sinnum í þinginu en mig langar að gera það einu sinni enn. Tvær aðrar tillögur um Evrópusambandið eru á dagskrá á eftir en tveir ræðumenn eru eftir í þessari sem er núna í gangi. Hvað á að gera við þessar tillögur? Á að ræða þær í nótt, 15 mínútur á mann, eru áform um að taka hana upp á þriðjudaginn eða ætlar hæstv. forseti að taka hana af (Forseti hringir.) dagskrá og skilja þá þær tillögur eftir þegar málið verður sent inn til utanríkismálanefndar?