143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

mótmæli gegn ofsóknum gegn samkynhneigðum í Úganda.

348. mál
[21:22]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að þakka mér, hann ætti frekar að þakka þeirri samstöðu sem ríkir á Alþingi Íslendinga um raunverulega grundvallarþætti eins og flest það sem snýr að mannréttindum. Sem betur fer eru þau það sem sameinar okkur öll.

Hv. þingmaður nefndi blaðagrein sem ég hef reyndar ekki séð — ég get trúað hv. þingmanni fyrir því að ég les helst ekki dagblöð nema ég skrifi þau sjálfur, greinar og annað slíkt, notfæri mér aðra miðla núorðið. Ég þekki þetta því ekki.

Hins vegar er það þannig — af því að hv. þingmaður sagði eftir Úgandamanni að hann vildi ekki að Vesturlönd þrýstu á Úganda — án þess að ég hafi rakið það í ræðu minni áðan að það er þó fyrir áhrif meðal annars frá Vesturlöndum sem verið er að reyna að þrýsta löggjöf af þessu tagi í gegnum nokkur þing Afríkuríkja, til dæmis í Úganda. Sýnt hefur verið fram á það mjög sterklega að tilteknir hópar eru í Bandaríkjunum sem trúa á sama guð og ég, en bara með miklu meira offorsi. Þeir hafa veitt mikla fjármuni til þess að hafa áhrif á þingmenn, til dæmis á úgandska þinginu og að minnsta kosti þremur öðrum Afríkuríkjum sem ég hef lesið um. Þessi löggjöf er, ég sel það ekki dýrara en ég keypti það, ég las um það á vefnum, meðal annars afrakstur þess.

Ég tel að ef maður hefur grundvallarafstöðu til heimsins og til þess hvernig annað fólk á að fá að lifa og hvernig við megum lifa, þá á maður að leggja í sölurnar og berjast fyrir því. Ef við teljum að það hafi áhrif og geti gagnast framþróun mannréttinda í heiminum að grípa til þeirra aðgerða sem reifaðar eru í tillögunni, þá gerum við það. Ég tel að svo sé og vil síður taka ákvarðanir mínar út frá greinum eða viðtölum við úgandska menn í Fréttablaðinu með fyllstu virðingu fyrir öllum viðkomandi.