143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Í dag barst okkur hefðbundinn boðskapur frá Seðlabanka Íslands um að stýrivextir yrðu ekki lækkaðir á Íslandi. Ég vil aðeins fara yfir gefnar forsendur.

Í síðasta mánuði, þegar vextirnir lækkuðu ekki heldur, var sagt, með leyfi forseta:

„Verðbólguhorfur til næstu tveggja ára hafa hins vegar versnað frá nóvemberspá bankans þar sem horfur eru á að slaki í þjóðarbúskapnum snúist í spennu á tímabilinu.“

Í dag segir að verðbólga hafi lækkað í 2%, að kjarasamningar sem gerðir voru um áramótin verði leiðandi í öðrum kjarasamningum sem gerðir verða og séu undir verðbólgumarkmiðum. Síðan segir að verðbólguvæntingar til skamms tíma hafi einnig lækkað í takt við hjöðnun verðbólgu en verðbólguvæntingar til langs tíma séu enn töluvert yfir verðbólgumarkmiði.

Í febrúar var talað um að næstu 18 mánuði væru verðbólguhorfur stöðugar. Um hve langan tíma eru menn að tala? Eru menn að tala um 2023? Ég ætla að spyrja þeirrar spurningar sem ég spurði um daginn þegar sambærileg ákvörðun Seðlabankans lá fyrir: Hvenær verða skilyrði, og hvaða skilyrði, á Íslandi til að Seðlabanki Íslands treysti sér til að lækka stýrivexti?

Það hefur komið fram í máli seðlabankastjóra að setja þurfi sérvaxtakjör fyrir erlenda kröfuhafa sem eiga hér 300 milljarða á vöxtum, vexti sem séu lægri en stýrivextir. Þetta bendir að mínu mati til þess að stýrivaxtastefna Seðlabankans hafi gjörsamlega brugðist. Það er líka rétt að benda á að spár Seðlabankans um verðbólgu sem er nú 2% voru 4,5%. Eitthvað er spádómsgáfan að bresta.

Þar fyrir utan getur þessi ræða mín, eftir því sem seðlabankastjóri sagði í morgun, orðið til þess að of mikill þrýstingur myndist á (Forseti hringir.) stjórn Seðlabankans og það sé óheppilegt (Forseti hringir.) vegna þess að þá líti út fyrir að Seðlabanki Íslands taki ákvarðanir um stýrivexti (Forseti hringir.) undir þrýstingi utan frá. Hvers konar fíflalæti eru þetta eiginlega, herra forseti?