143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er áhugavert að hv. þm. Össur Skarphéðinsson telur að það sé mikilvægt, eða ég skil hann svo, að gera breytingar á stjórnarskrá sem heimila þetta takmarkaða framsal sem í sumum tilvikum er krafist af okkur í kringum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þó er ástæða til að vekja athygli á því að hann var í fjögur ár utanríkisráðherra ríkisstjórnar sem vann ötullega að því að koma okkur inn í Evrópusambandið án þess að nokkur stjórnarskrárbreyting væri gerð sem (ÖS: Við lögðum fram tillögu um það.) heimilar inngöngu. Hv. þingmaður er að vísa til hvaða tillögu? (ÖS: Í stjórnarskrárfrumvarpinu.) Í stjórnarskrárfrumvarpinu var ekki að finna (ÖS: … upphaf …) heimild til að ganga inn í Evrópusambandið í þeim útgáfum sem hér var … (Gripið fram í.) Ekki var um að ræða framsal af því tagi sem hér er um að ræða. (Gripið fram í.)

Það er hins vegar áhugavert að fá þennan flöt fram í umræðunni vegna þess að það kristallar í mínum huga mjög skýrt að framsalsheimild á takmörkuðu sviði sem lýtur að einhverjum afmörkuðum þáttum er ekki það sem dugar sem stjórnarskrárbreyting til þess að heimila okkur inngöngu í Evrópusambandið. Það þarf mun víðtækari heimild og skýrari heimild til þess að fara í það viðamikla framsal á fullveldisrétti sem felst í aðild að Evrópusambandinu. Það er kannski það sem ég vildi helst draga fram í umræðunni á þessu stigi vegna þess að oft er látið í veðri vaka að það fullveldisframsal sem fælist í inngöngu okkar í Evrópusambandinu sé nú eiginlega ekki neitt miðað við það sem staðan býður upp á í dag.