143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[15:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni. Ég tel að þetta sé mjög alvarlegt mál og ég tel að þeir sem harðast hafa gengið fram í þessu máli hafi ekki verið að vinna gagn fyrir sitt heimahérað, því miður. Það er mín skoðun. Ég held að möguleikarnir sem þarna eru til vaxtar og til eflingar staðnum hafi verið einstaklega miklir og mikill vilji, bæði af minni hálfu og Háskóla Íslands, til að gera þetta mjög vel, gera þetta af myndarskap til að tryggja þarna mikla uppbyggingu. En það er ekki skynsamlegt að fara fram gegn öllum þeim sem þarna eiga hagsmuni.

Þá liggur það fyrir og hefur gert alla tíð af minni hálfu hver valkosturinn er. Valkosturinn er sá sem kemur fram í kröfum fjárlaganefndar um það að rekstur skólans fari inn fyrir fjárheimildir og það verði byrjað að greiða til baka þá fjármuni sem hafa runnið til skólans. Því miður held ég að talan sé 762 milljónir, ef ég man rétt, sem farið hafa til skólans á undanförnum árum umfram það sem þingið hefur samþykkt. Reyndar á skólinn einhverjar eignir sem hann getur sett á móti í hlutabréfum og skuldabréfum, (Forseti hringir.) sem sjálfsagt er að taka, en eftir stendur stór og mikill halli og við það þarf auðvitað að fást.