143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

utanríkisstefna Íslands.

[15:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langaði að heyra álit hæstv. forsætisráðherra á mjög svo misvísandi utanríkisstefnu sem hér er við lýði. Ég átta mig ekki alveg á því hver fer með utanríkisstefnu landsins, hvort það er ríkisstjórn Íslands eða forseti Íslands.

Það verður að viðurkennast að þegar ég sá forseta Íslands setja ofan í við ráðamenn frá Noregi fyrir að tjá sig um ástandið í Úkraínu þá fór ég svolítið hjá mér, mér þótti það frekar neyðarlegt og fleiri þingmönnum sem voru nærri mér á þeim tíma.

Mig langaði að spyrja hvort hæstv. forsætisráðherra hafi rætt það eitthvað við forseta Íslands hver sé handhafi utanríkisstefnu landsins. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem forseti Íslands fer fram með mjög afgerandi utanríkisstefnu.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra af hverju það er svona algengt að forseti Íslands sé sendur á samkundur þar sem utanríkisstefna landsins er rædd eða kemur upp á yfirborðið.

Nú hefur forseti Íslands gjarnan mætt í stóra erlenda fjölmiðla og komið þar með utanríkisstefnu sem ég kannast hvorki við að sé utanríkisstefna fyrrverandi ríkisstjórnar né núverandi ríkisstjórnar. Mér finnst þetta ekki bara vera orðið vandamál heldur er þetta mjög ruglingslegt fyrir vini okkar sem við eigum í samstarfi við í öðrum löndum.