143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að ég sé ekki alveg hinn djúpa rökstuðning eða útfærsluna á þessu öllu. Ég vísa til þess að í greinargerðinni segir að með því að leggja nefndir þessar af og setja í staðinn starfsreglur um úrræði vegna aga- og siðferðisbrota telja kirkjuyfirvöld að unnt verði að skerpa á því í hvaða farveg kvörtunar- og kærumál eiga að fara. Þessi hagræðingarrök blæs ég nú bara á.

Ég held að staðan sé sú að þjóðkirkjan eigi allt undir því, og við sem er hlýtt til þjóðkirkjunnar eigum allt undir því að hún hafi innri styrk til þess að takast á við erfið mál sem óhjákvæmilega koma upp í sálgæslu og samskiptum og að hún ráði við að leysa úr slíkum málum. Í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum fengið á undanförnum árum af siðferðisbrotum innan þjóðkirkjunnar, og á erlendum vettvangi líka eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, hræðilega víðtæk brot mjög víða, er auðvitað mjög mikilvægt að það sem á að koma í staðinn fyrir þetta kerfi verði útfært betur en gert er í þessu frumvarpi og að við fáum að sjá betur hver umgjörðin er sem á að vera fullnægjandi til að skapa traustið og trúnaðinn um að svona hlutir hendi ekki og að hendi þeir, verði á þeim tekið af myndugleik og ábyrgð. Það er kannski það sem við þurfum nauðsynlega að fá að sjá og er mjög mikilvægt að nefndin leiti af sér allan grun með að það sé raunverulega önnur (Forseti hringir.) trúverðug umgjörð og að biskup valdi því og hafi aðstæður til þess að axla þetta erfiða hlutverk.