143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það verður að vega agi í hernum, sagði góði dátinn Svejk. Það gildir um alla heri, líka heri guðs á jörðu. Þess vegna ber að fagna því að 1. gr. þessa að mörgu leyti ágæta frumvarps sem hæstv. innanríkisráðherra flytur er um að nauðsyn þess að setja ákvæði í starfsreglur um kirkjuaga. Ég er hlynntur því. Það þarf alls staðar að vera agi.

Almennt segi ég um þetta frumvarp að ég styð það. Ástæðan er sú að ég er þeirrar skoðunar að kirkjan eigi að fá að ráða sínum efnum í sem mestum greinum. Það kemur fram í máli hæstv. innanríkisráðherra að frumvarpið er lagt fram sem hluti af niðurstöðu umræðu sem staðið hefur með hléum síðan 2007. Hér hafa í dag hv. þingmenn velt því fyrir sér af hverju frumvarpið taki einungis á örfáum greinum þess frumvarps sem menn hafa rætt á kirkjuþingum. Nú liggur fyrir, herra forseti, að ekki hefur enn náðst samstaða innan kirkjunnar um endanlega gerð nýrra kirkjulaga. Ég tel þess vegna að það sé til marks um skynsemd þjóðkirkjunnar að fara þá leið að freista þess að fá samþykki Alþingis fyrir breytingum sem þjóðkirkjan eða kirkjuþing telur nauðsynlegt að ná fram hið fyrsta.

Hin pólitíska ástæða fyrir því að ég styð meginefni þessa frumvarp, sem felur í sér aukið vald kirkjuþings, er af lýðræðislegum toga spunnið. Ég tel að frumvarpið auki lýðræði innan þjóðkirkjunnar með megingreininni, sem er 4. gr. Þá er tekið skýrt af skarið um að kirkjuþingið hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með töldum fjármálum. Með því að slá í gadda að kirkjuþingið sé æðsta vald innan þjóðkirkjunnar er líka verið að færa vald til leikmanna innan kirkjunnar. Á kirkjuþingi eiga sæti fulltrúar sem að meiri hluta eru leikmenn. Þess vegna lít ég svo á að þessi breyting sé partur af lýðræðisvæðingu innan samfélagsins því hún eykur lýðræði innan kirkjunnar. Það er hin pólitíska meginástæða fyrir því að ég er hlynntur frumvarpinu.

Í reynd lít ég líka svo á að með frumvarpinu sé verið að feta sama stig og Alþingi hefur fetað varðandi aðskilnað verkþátta lýðveldisins á síðustu tveimur áratugum. Það er í reynd verið að greina skýrt á milli framkvæmdarvaldsins, sem er kirkjuráðið, og hins vegar kirkjuþingsins sjálfs, sem í þessari líkingu er samsvarandi Alþingi Íslendinga, löggjafarsamkunda. Það tel ég að sé mjög gott.

Komið hefur fram að í dag eru teknar ákvarðanir um fjárveitingar til einstakra verkefna innan þjóðkirkjunnar af hálfu kirkjuráðsins. Þarna verður breyting á. Það er þingið, þar sem leikmenn sitja í meiri hluta, sem tekur ákvarðanir um fjárveitingar til ýmissa verkefna sem þjóðkirkjan tekur sér fyrir hendur. Ég held að það sé mjög jákvæð breyting. Ég tel þess vegna, af þessum tveimur ástæðum, að skerping á milli framkvæmdarvaldsins og þingsins annars vegar og hins vegar aukin lýðræðisvæðing innan þjóðkirkjunnar ætti að leiða til þess að þingmenn ættu að taka þessu fagnandi.

Það sem ég vildi svo ræða hér frekar er það sem ýmsir þingmenn hafa gert að umræðuefni, þ.e. afnám nefndanna tveggja, úrskurðar- og áfrýjunarnefndar.

Mér hefur hlotnast sú vegsemd að sitja í samstarfsráði Alþingis og þjóðkirkjunnar. Þess vegna nýt ég þeirra forréttinda að mér voru kynntar þær áætlanir sem kirkjan hafði um breytingar á sínum högum, en hæstv. innanríkisráðherra ber að lögum að leggja fram þau frumvörp sem kirkjuþing hefur samþykkt. Þar minnist ég þess að við fórum mjög rækilega yfir þá grein sem frá mínum bæjardyrum séð er aðalgreinin sem færir þessi auknu völd til kirkjuþingsins. En ég minnist þess ekki að nokkuð hafi verið rætt um þær breytingar sem fela í sér brottfall úrskurðar- og áfrýjunarnefndar þegar kirkjan fór yfir frumvarpið með okkur.

Nú er það þannig að eins og öðrum elnar mér aldur og minnið er hrösult og kannski orðið illa til reika, en ég man ekki eftir nokkurri umfjöllun um þetta í samstarfsnefndinni.

Ég velti fyrir mér hvaða afleiðingar þetta nýmæli hefur. Ég tek það fram algjörlega skýrt að ég ætla ekki fyrir fram að hafa neikvæða skoðun á þessu. Eitthvað hlýtur fyrir mönnum að vaka. En hver á þá að sjá um framfylgd reglnanna?

Í 1. gr. er talað um að kirkjuþingið setji ákvæði í starfsreglur, þær eiga meðal annars að fela í sér farveg fyrir lausn mála sem tengjast agabrotum innan kirkjunnar. En hver á að úrskurða um það með hvaða hætti reglunum er framfylgt? Ég velti því t.d. fyrir mér ef prestur eða starfsmaður þjóðkirkjunnar sem sætir þessum reglum er ósáttur við hvernig þær eru framkvæmdar, hvert getur hann skotið máli sínu? Það er það sem ég vildi spyrja hæstv. innanríkisráðherra um. Hver er það sem verndar þá sem sæta hinum nýju reglum ef þeir telja að á þeim sé brotinn réttur? Hver er það í reynd sem sér um framfylgdina? Er það kirkjuráðið? Er það biskup? Það er óskýrt í þessum lögum. Það þarf að liggja klárt fyrir.

Við vitum það líka að upp hafa komið mál þar sem prestar eru ósáttir við ákvarðanir biskups sem þá varða. Þá má kannski orða spurninguna sem af þessu sprettur með eftirfarandi hætti:

Hver á að verja prestana og starfsmenn þjóðkirkjunnar fyrir biskupi?

Það þarf að vera algjörlega skýrt.

Þau mál sem hafa kannski orðið þyngst í skauti þjóðkirkjunnar á síðustu árum eru mál sem risið hafa í tengslum við einhvers konar agabrot sem segja má að varði kynferðislega áreitni presta eða eitthvað því skylt. Hvernig á að leysa úr svo erfiðum málum ef það er enginn lengur sem hægt er að vísa slíkum málum til? Hver á að skera úr ágreiningi? Biskup? Kirkjuráð? Það er ekki skýrt í þessum lögum.

Ég tel sem sagt að það liggi ekki algjörlega skýrt fyrir hvernig fara á með mál af þessum toga. Ég tel að það liggi heldur ekki skýrt fyrir hver á að sjá um framfylgd þeirra reglna sem semja á samkvæmt 1. gr., óljóst er hvort það er biskup eða kirkjuráð.

Í þriðja lagi tel ég óljóst hvert sá sem reglunum sætir og telur á sér brotið með framfylgd þeirra getur skotið sínu máli. Það er mjög mikilvægt að skýra.