143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

verndartollar á landbúnaðarvörur.

[10:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Þetta hefur svo sem komið upp áður. Við hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir verðum sjálfsagt seint alveg sammála um þetta enda gerir það ekkert til. Til þess eru pólitískir flokkar og pólitísk umræða.

Ég held að það sé fullkomlega eðlilegt að við beitum tollvernd til að verja innlenda framleiðslu eins og öll önnur ríki gera. Nú hefur meðal annars komið í ljós á liðnum vikum að sú stefna sem gildir á Íslandi um tollvernd að við erum mjög frjálslynd í þeim efnum, til að mynda í samanburði við Evrópusambandið sem beitir tollvernd miklu grimmar og á miklu fleiri tegundir. Hér innan lands eru til að mynda allflest innflutt matvæli á núll-tollum. Ég hef ekki séð að það hafi skilað sér í mjög lágu eða sambærilegu vöruverði og í öðrum löndum hvað þær matvörur varðar.

Það þarf að horfa til einhverra annarra þátta en tollverndarinnar einnar.

Það er líka fullkomlega eðlilegt að öll ríki beiti tollvernd. Til þess setjast menn niður og gera viðskiptasamninga, fríverslunarsamninga og annað þar sem menn gera samninga um tollvernd til að auka viðskipti á lágum tollum eða engum tollum.

Það væri fráleitt í mínum huga að gefa eftir einhliða tolla á Íslandi og fá ekkert annað í staðinn í viðskiptum við aðrar þjóðir, sérstaklega í ljósi þess að á Íslandi er miklu frjálslyndari tollverndarstefna en til að mynda í Evrópusambandinu, svo ég beri það saman. Í því ljósi get ég ekki verið sammála því að það eitt og sér að fella niður tolla einhliða muni koma neytendum til góða. Ég hef ekki séð að það hafi gerst þó að engin tollvernd sé á mörgum matvælum sem flutt eru til landsins.